138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður velti upp spurningu sem ég hygg að vefjist fyrir mjög mörgum að svara, það var þegar hv. þingmaður velti fyrir sér með hvaða hætti hefði eiginlega verið staðið að þessari samningagerð og hvort það væri mögulegt að menn hefðu kannski verið komnir lengra með samningagerðina út af Icesave fyrir kosningar en látið var í veðri vaka. Það er ekki óeðlilegt að þessari spurningu sé velt upp vegna þess að þessi mál hafa birst okkur sem stöndum utan við þetta ferli, eins og nú til dags er oft sagt, með mjög sérkennilegum hætti. Við skulum ekki gleyma því að í þinginu var eftir kosningar hvað eftir annað farið fram á það við ríkisstjórnina, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, að þau greindu okkur frá því með hvaða hætti væri unnið að samningagerðinni út af Icesave við Hollendinga og Breta. Í öllum þeim umræðum sem þá fóru fram kom skýrt fram af hálfu hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra að það væru yfir höfuð bara engar formlegar samningaviðræður í gangi milli þjóðanna. Fáeinum dögum áður en samningarnir síðan litu dagsins ljós sem fullbúið plagg sagði hæstv. fjármálaráðherra að ekkert slíkt væri í vinnslu af hálfu samninganefndar, það væru að vísu óformlegar þreifingar í gangi, og tveimur sólarhringum seinna, 48 tímum eða þar um bil, lá allt í einu fyrir okkur fullbúið plagg sem hæstv. ríkisstjórn treysti sér síðan til að leggja fyrir Alþingi.

Þetta vekur upp endalausar spurningar um það með hvaða hætti var unnið að þessu. Þetta er að mínu mati, og ég vildi spyrja hv. þingmann um það, enn eitt dæmið um þá leyndarhyggju sem stöðugt hefur ríkt í samskiptum ríkisstjórnarinnar, almennings og þingsins þar sem reynt hefur verið að afvegaleiða umræðuna og þingið með þeim hætti sem þarna var gert og líka að leyna Alþingi upplýsingum, leyna meira að segja Alþingi sjálfum samningunum. (Forseti hringir.)