138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held einmitt að það sé mjög mikilvægt að við rifjum upp forsögu þessa máls. Það er hárrétt sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson segir, aðspurður svaraði hæstv. fjármálaráðherra því til í vor að ekki væri verið að semja eða að samningar lægju ekki fyrir, eins og ég man það, það væri frekar langt í land með að það kláraðist. Svo kom bara í ljós að það reyndist ekki rétt. Nokkrum klukkustundum seinna, eins og hv. þingmaður benti á, lágu samningarnir fullbúnir á samningaborðinu. Ef hin svokölluðu leynigögn geta varpað skýrari mynd á umræðuna á að aflétta leyndinni. Það er einfaldlega þannig. Fjölmiðlar landsins hljóta að krefjast þess að öll gögn séu uppi á borðinu, svo framarlega sem þau brjóta ekki gegn stjórnarskrárvörðum réttindum, ógni öryggi landsins.

Höfum eitt hugfast, eftir að við börðumst fyrir því var leynd aflétt af hinu svokallaða „settlement agreement“ sem var númer eitt í leynimöppunni. Nú segja menn: Guði sé lof, vegna þess að þar sáu menn svart á hvítu hversu óhagstæðir og niðurlægjandi Icesave-samningarnir voru fyrir Ísland.

Ég skora á fjölmiðla landsins að krefjast þess að allri leynd verði aflétt af öllum gögnum málsins. Ég held að almenningur eigi rétt á því, sérstaklega í ljósi þess að allar skatttekjur um 80.000 þeirra (Forseti hringir.) fara einmitt í að borga vextina af samningunum.