138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því ég veit að hv. þingmaður er sanngjarn maður mætti auðvitað hugsa sér að við reyndum að horfa á þetta út frá mjög sanngjörnum sjónarhóli fyrir ríkisstjórnina og veltum því fyrir okkur að samninganefndin hafi verið skipuð óvenjulega handfljótu fólki sem hefði verið fljótt að átta sig á öllum aðalatriðunum og þess vegna getað samið um þessa hluti á 48 tímum, gengið frá plöggunum þannig að fullsæmandi hefði verið og ekkert hefði verið á bak við það. Þetta er kannski ekki alveg jafnósennileg tilgáta og hún hljómar ef við skoðum það sem fyrir þingið var lagt í upphafi. Það plagg hljómaði svona:

Við höfum ákveðið að gefast upp og fallast á kröfur Breta og Hollendinga.

Það frumvarp sem lá fyrir var einfaldlega þess efnis að það væri gefin ótakmörkuð ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunum og fjármálaráðherra síðan falið að láta útbúa lánsskjölin með sínu fólki. (Gripið fram í.) Þetta var plaggið sem fyrir okkur var lagt. Hins vegar lá samningur til grundvallar, þann samning átti ekki að sýna þjóðinni og alls ekki þinginu. Í þeim samningi kom fram hversu hraklega hafði verið unnið, auðvitað ekki af hálfu samninganefndarinnar, heldur af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er ástæða til að árétta að ríkisstjórnin fer með þessa ábyrgð, ríkisstjórnin lagði fram ákveðin samningsmarkmið. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á þessu máli og verður þess vegna að standa reikningsskil þess.

Síðan er það hin mikla saga að Alþingi tók þetta mál í sínar hendur og þá var það mjög mært, stórkostlegur áfangi fyrir Alþingi. Nú er það hins vegar svo að ekki má breyta stafkrók. Eins og við vitum leggur meiri hluti fjárlaganefndar Alþingis málið fram að nýju án þess að hruggað hafi verið við (Forseti hringir.) kommu eða punkti og þannig er ætlast til þess af ríkisstjórninni og ekki síður, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, af því hér eru loksins komnir tveir stjórnarsinnar, af þingflokkum (Forseti hringir.) og þingmönnum stjórnarliðsins. Engu á að breyta. Allt á að gefast upp. (Forseti hringir.)