138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:38]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er þetta ekkert nema útúrsnúningur hjá hæstv. fjármálaráðherra. Það sem vísað var til var að samningur var kominn um það á hvaða forsendum aðilarnir ætluðu að ræðast við. Og fyrst það samkomulag var komið var engin hætta á því að þeir færu fram á að Evrópusambandið gripi til öryggisráðstafana gagnvart Íslandi með vísan til EES-samningsins.

Hitt er algert meginatriði, ég taldi að við ættum að freista þess að ná pólitískri lausn þar sem ríkt tillit yrði tekið til okkar Íslendinga en það tókst ekki. Það tókst ekki. Það liggur í orðunum sem vísað er til að ég vildi fá betri niðurstöðu en að tapa dómsmáli. Hér er niðurstaða sem er jafnvond og að tapa dómsmáli eða jafnvel verri. Þá segi ég: Það er miklu betra að fara fram á réttinn þegar þannig er komið.

Um það hvort ég hafi verið að vísa til einhverra frekari krafna sem á okkur kynnu að standa er bara um það að segja að ríkisstjórnin hefur ekkert leyst það mál. Það er ekki verið að (Forseti hringir.) reyna að leysa neinar aðrar kröfur heldur en akkúrat bara innstæðutrygginguna með þessum samningum hér (Forseti hringir.) þannig að ríkisstjórnin hefur ekkert leyst það. Ég var ekki að vísa til þess að við gætum (Forseti hringir.) í þessum samningum mögulega samið um eitthvað annað en innstæðutryggingar.