138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:40]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni að nú er orðið tímabært að aflétta leyndinni af þeirri leynimöppu sem liggur hér úti á nefndasviði. Ég fór þangað áðan fyrir tilstuðlan hv. þm. Birgittu Jónsdóttur og las síðasta blaðið sem þar liggur. Það er mjög athyglisvert og ég óska eftir því að leyndinni verði aflétt hið fyrsta svo fjölmiðlar komist í þetta, það skýrist margt þá.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson. Í gr. 2.1.2 í hollenska samningnum er t.d. ákvæði varðandi það að íslenska ríkið muni fá heimild án skilyrða og fyrirvara til að taka á sig ábyrgð samkvæmt breyttum lánasamningi og hverja þá heimild aðra sem þarf til að tryggja að skuldbindingar íslenska ríkisins og tryggingarsjóðsins samkvæmt fjármálaskjölum séu lögmætar, gildar, bindandi og fullnustuhæfar. Hvaða skuldbindingar er átt við sem eru svo íþyngjandi að íslenska (Forseti hringir.) ríkið skuli hafa þarna (Forseti hringir.) kröfur sem eru fullnustuhæfar? Og hvað er átt við í þessum samningi?