138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:53]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg vafalaust að það hefur skort að við tengdumst þeim sem mestu hafa ráðið á hinu pólitíska sviði, á pólitískum vettvangi, að við næðum áheyrn þeirra og útskýrðum málstað okkar, og sjónarmið og bæði fyrir stjórn og stjórnarandstöðu í viðkomandi ríkjum eftir því sem ástæða hefði þótt til.

Ég tel enn þá þann flöt vera uppi á málinu að draga ætti Evrópusambandið að því, útskýra fyrir þeim að þrátt fyrir góðan hug hafi þjóðunum ekki tekist að komast að niðurstöðu sem sátt sé um og nú sé það fyrir Evrópusambandið að ákveða hvort það ætli að hlutast um lausn á málinu sem á upphaf sitt hjá því, þ.e. inni á Evrópuþinginu. Þaðan kom út sú gallaða löggjöf sem leitt hefur fram þennan ágreining ella verði málin einfaldlega að fara fyrir dómstóla.