138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:10]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála þingmanninum að því leytinu til að ég vona svo sannarlega að hægt verði að breyta þessu máli í nefndinni en eins og ég sagði áðan er ég farin að efast aðeins um það. Þingmaðurinn nefndi gjá og átti þá við í þinginu en það hefur verið talað um gjá milli þings og þjóðar. Þingmaðurinn vísaði einnig til undirskriftasöfnunarinnar á indefence.is og þá liggur beinast við að spyrja þingmanninn hvað hann telji að forseti Íslands muni gera. Eins og hann sagði er komið vel á þriðja tug þúsunda undirskrifta. Söfnuninni er ekki lokið. Á meðan málið er til umræðu á Alþingi er söfnunin í gangi. Telur þingmaðurinn að miðað við þau orð sem forseti Íslands hefur sjálfur látið falla eigi hann einhvers annars úrkosti en að synja þessum lögum staðfestingar, (Forseti hringir.) miðað við hans eigin orð?