138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:12]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst af öllu þakka ég hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni ræðuna. Hann hefur flutt ágætar ræður í þessu máli, mjög málefnalegar og þær bera vott um að hann hefur sett sig vel inn í málið. Svo háttar til að hv. þingmaður er dýralæknir að mennt og eftir því sem ég best veit líka fyrrverandi sauðfjárbóndi. Af þessu tvennu mætti ætla að hann væri fjárglöggur maður og ekki veitir af í því máli sem hér um ræðir því að það snýst að stórum hluta um fé, fundið fé eða tapað fé. Í það minnsta liggur fyrir að við þurfum töluvert laust fé til að geta staðið skil á þeim skuldbindingum sem hér er um að ræða því að ekki getum við sótt í eigið fé þjóðarinnar til að standa skil á þessum skuldbindingum. Leit stendur yfir að fundnu fé og, það sem verra er, við þurfum helst að hafa það erlent til að standa skil á þeim skuldbindingum sem um ræðir.

Þar sem hv. þingmaður hefur farið mjög ítarlega yfir ýmis efnisatriði þessa máls og uppi eru skiptar skoðanir um það með hvaða hætti við getum tekist á við þær skuldbindingar sem stendur til að íslenska þjóðin undirgangist að tillögu ríkisstjórnar Íslands væri þess vert að fá hugleiðingar hans í því efni, ekki síst í ljósi þeirrar tillögu sem hann gerði um að við gerðum hlé á umræðunni og tækjum þetta upp síðar.

Hvaða þættir í þessu máli gætu orðið til þess að við gerðum tilteknar breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi? Finnst hv. þingmanni koma til greina að gera einhverjar breytingar á þessu í stað þess að hafna málinu alfarið eins og ríkur vilji virðist ekki vera til? Hvaða lausnir sér hv. þingmaður í þessum efnum til að reyna að fá fram breytingar (Forseti hringir.) á frumvarpinu?