138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:14]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Júlíussyni fyrir fyrirspurnina. Það er rétt hjá honum að við eigum í talsverðum vanda við að afla fjár til að greiða þessar skuldir og eins og hann kom inn á deilum við tveir a.m.k. þeim skoðunum að ekki sé mjög auðvelt að ganga í vasa íslenskra skattgreiðenda og sækja alla fjármunina þar. Það eru takmörk fyrir því hversu langt er hægt að ganga þó að vissulega sé hægt að hugsa sér að hækka þurfi skatta hóflega til að ná í einhverjar tekjur til að fylla upp í götin.

Aðalatriðið er að við þurfum að afla erlends gjaldeyris til að greiða þessar skuldir. Þar liggur hundurinn grafinn, ef það væri til að mynda möguleiki að greiða skuldina í íslenskum krónum væri málið talsvert öðruvísi vaxið því að þá mundum við losa okkur undan þeirri gengisáhættu sem er viðbótaráhætta í þessu stóra máli.

Það hefur verið bent á að spá Seðlabankans um hagvöxt og gjaldeyrisafgang á næstu árum og áratugum sé vægast sagt mjög bjartsýnisleg. Ef við lítum 10–30 ár aftur í tímann væri það nánast kraftaverk og hér þarf að verða nánast umpólun á allri starfsemi, hugsun og hegðun Íslendinga ef við eigum að skila öllum þeim gjaldeyri sem þar er áætlað. Ég hef efasemdir um að það gangi eftir. Ég held að hægt væri að gera fleiri breytingar á þessum samningi og það væri æskilegt. Við framsóknarmenn munum væntanlega leggja til að hér verði til að mynda fenginn sérfræðingur í breskum lögum (Forseti hringir.) til að fara yfir samninginn áður en hann verður samþykktur. Ég held að það sé ein forsenda þess og með ólíkindum að ekki (Forseti hringir.) skuli vera búið að gera það fyrir löngu.