138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:26]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Björn Valur Gíslason fullyrðir að allt sé skýrt í samningnum og það er út af fyrir sig rétt að þó nokkrir hlutir eru nokkuð skýrir. Ég kom til að mynda inn á það í umræðum áðan að vanefndaákvæði samningsins væru afar skýr og gerðu Íslandi óheimilt að taka til varna með nokkrum þeim hætti sem okkur hefur dottið í hug. Það var einmitt eitt af þeim ef-um sem við settum við fyrirvarana í sumar að þeir stæðust hugsanlega ekki nema Bretar og Hollendingar staðfestu þá. Þess vegna var gerð krafa um það til að tryggja að þessi vanefndaákvæði samningsins yrðu felld úr gildi.

Varðandi það hvort betri vextir byðust einhvers staðar. Það hefur reyndar margoft komið fram, menn hafa talað um að betri vextir bjóðist á hinum og þessum stöðum. En ég var að vísa til álitsgerðar sem benti til þess að við ættum að sitja við sama borð. (Gripið fram í.) Mér finnst sjálfsagt að það mál sé kannað því það er grundvallað á Evrópska efnahagssvæðinu, á evrópsku tilskipuninni. (Gripið fram í.) Á sama hátt og við tökum á okkur þær skuldbindingar að greiða þetta hljótum við líka að sitja við sama borð hvað það varðar (Gripið fram í.) að geta fengið lán.