138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ágæta ræðu. Ég hjó eftir því í máli hans að hann hafði orðið jafnhissa og ég á ummælum hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, varaformanns fjárlaganefndar, um það að hér lægi allt klárt fyrir. Mig langar til að spyrja þingmanninn hvort hann deili ekki þeim skoðunum með mér að það væri þess virði að taka þær spurningar sem hafa vaknað til efnislegrar umræðu í fjárlaganefnd og öðrum nefndum, til að mynda varðandi þetta vaxtamál, þetta jafnræðismál, hvort innlánstryggingarsjóður okkar ætti sem gjaldþrota sjóður að sitja við sama borð og innlánstryggingarsjóðir Breta og Hollendinga á grundvelli jafnræðisreglu EES-samningsins.

Og einnig það sem rætt hefur verið varðandi stjórnarskrána og hvað þá ef tilfellið er, eins og hefur aðeins komið fram í umræðum í dag, að skuldastaða þjóðarinnar sé hugsanlega mun verri en áður hefur verið talið, þótt ég voni að svo sé ekki og telji reyndar að við höfum fjölmörg tækifæri til að komast út úr þessu, óvanalega mörg sóknarfæri ef vel er haldið á spilunum.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að þörf sé á því að taka þessi mál til umfjöllunar í nefndinni með sama góða hætti og á sumarþinginu. Ég tek undir það enda fékk formaður fjárlaganefndar og nefndin öll hrós fyrir vinnu sína í sumar en það sama verður víst ekki hægt að segja um vinnuna nú í haust, enda kemur það fram í þremur minnihlutaálitum við fjárlaganefnd að menn telja að þar hafi málið verið rifið út án þess að farið væri í nægilega efnislega umræðu og þá hefði kannski verið minni efnisleg umræða hér. (Forseti hringir.) Ég tek undir það með hv. þingmanni.