138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður kom inn á í sambandi við fjárhæðirnar, þá vitum við öll sem erum hér inni að það er alltaf ákveðin gengisáhætta, við getum aldrei komið í veg fyrir hana. En auðvitað snýst þetta fyrst og fremst um það hverju verður hent út úr þrotabúinu og þar fram eftir götunum þannig að við vitum ekki upphæðina. Það liggur alveg ljóst fyrir og við eigum ekki að láta eins og við vitum hver hún er. Ég geri mér hvorki grein fyrir hver hún er né, eins og var bent á áðan, hvernig Ragnars H. Halls-ákvæðið mun fara. Það er mjög margt sem við vitum ekki og komumst hugsanlega ekki að fyrr en eftir langan tíma. Þess vegna ítreka ég líka eins og ég hef sagt áður, að kannski hefði verið skynsamlegra — það er búið að aftengja efnahagslegu fyrirvarana að því leytinu að við þurfum alltaf að borga vextina og það var einmitt það sem Lee Buchheit, þessi reyndi samningamaður, kom inn á þegar hann hitti fjárlaganefnd í sumar. Hann sagði að við hefðum tvo kosti, annars vegar að setja mjög sterka efnahagslega fyrirvara ellegar að segja að við mundum viðurkenna þessa skuldbindingu og ábyrgjast að greiða 20.887 evrur og setjast síðan niður með Bretum og Hollendingum þegar öllum óvissuspurningum væri svarað um hver heildarupphæðin væri í raun og veru og hvernig íslensk þjóð gæti staðið skil á henni. Það voru hans ráðleggingar.

Það sem hv. þingmaður kemur inn á í sambandi við vaxtamálin, þá er auðvitað mjög mikilvægt að við skoðum alla fleti á málinu, um það þurfa ekki að vera neinar deilur. Allir eiga að vera sammála um að skoða alla hluti og ég vil benda á að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson færði mjög sterk rök fyrir því í ræðu á dögunum að hugsanlega væri mjög skynsamlegt að taka breytilega vexti vegna þess að þeir eru mjög lágir á meðan krafan er mjög há. Þetta er hlutur sem við verðum og er skylt að skoða. Hann taldi að það mundi geta sparað okkur allt að 100 milljörðum eftir því sem hann hafði farið ofan í og færði fyrir því ágætisrök þannig að ég vænti þess að hv. fjárlaganefnd fari yfir þessa fleti málsins. Það ættu þá ekki að standa deilur um það við Breta og Hollendinga ef menn vildu breyta vaxtakjörunum.