138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég bið hv. þingmann velvirðingar á því að hafa ekki munað eftir að hann var ekki á fundinum. Það er rétt sem hann segir að hann hefur verið manna duglegastur að mæta á fundi. Ég ætla þá að upplýsa hv. þingmann um það og mun standa við það hvar sem er að ég gekk eftir því í lok fundar að spyrja þá alla fjóra þessarar einföldu spurningar, því stjórnarandstaðan óskaði eftir því að fjallað yrði um þetta í nefndinni í miðri 2. umr. Mjög óvanalegt er að verða við því að taka mál og ræða í miðri umræðu í þinginu og ég tel eðlilegt að ljúka 2. umr. og taka síðan málið inn. Ég lauk fundinum með því að bjóða að við settumst niður og færum yfir hvað menn óskuðu að ræða, hve langan tíma þyrfti til þess og hvað við ættum að taka fyrir. Ég spurði einfaldrar spurningar: Er ástæða til að hafa áhyggjur af þessu varðandi stjórnarskrána eður ei? Rætt var um hvort þyrfti greinargerð eða afdráttarlaus svör frá þessum þremur, ég get upplýst hv. þingmann um það. Lögfræðingurinn Sigurður Líndal sem hér skrifar var í raun að kynna vangaveltur sínar og áhyggjur af því hvort þetta gæti verið eitthvert álitamál. (Forseti hringir.) Hann hafði ekki kynnt sér málið sérlega vel en byggði það mjög á efnahagslegum rökum sem hann hafði enn þá minna skoðað. (Forseti hringir.) Svarið var mjög skýrt á þessum fundi, að engin ástæða væri til að eyða tíma í þetta mál. (Forseti hringir.)