138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er ekki annað hægt en að bregðast aðeins við þeirri umræðu sem hér fór fram á milli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar og hv. þm. Guðbjarts Hannessonar. Ég var nefnilega á þessum fundi. Það er alveg rétt að því ber að fagna þegar stjórnarandstaðan kallar eftir því að fá lögmenn á fund nefndarinnar. Það er mjög gott að það sé gert. Hins vegar finnst mér gagnrýnisvert að ekkert samráð var haft við stjórnarandstöðuna um hverjir yrðu boðaðir á fundinn. Ég sagði á fundi fjárlaganefndar að mér þætti ekki gott, jafnvel þó að ég bæri mikla virðingu fyrir þeim lögmönnum sem þar voru, að þeir aðilar sem tóku mikinn þátt og veittu kannski ráðgjöf við nýju samningana og breytingarnar eða komu að því með einum eða öðrum hætti yrðu svo beðnir um að meta hvort sú vinna færi í bága við stjórnarskrána. Ef við horfum hlutlaust á vanhæfisreglur almennt er það meginregla að aðili sem hefur framkvæmt eitthvað eða komið að málum sé ekki fenginn til að leggja mat á þau verk sín. Þá skiptir engu máli þó að þeir aðilar séu mikils metnir og njóti virðingar.

Það má kannski benda á að þetta var einmitt meginástæðan fyrir því að aðskilnaður dómsvalds og framkvæmdarvalds átti sér stað á síðasta áratug. Það var ekki vegna þess að menn treystu því ekki að sýslumenn gætu bæði rannsakað og dæmt í málum, Mannréttindadómstóllinn komst einfaldlega að þeirri niðurstöðu að það gengi ekki upp í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Að þessu sögðu vil ég taka fram að þegar hv. formaður fjárlaganefndar fullyrðir að þrír af þessum fjórum hafi verið algjörlega sammála um að þetta bryti ekki gegn stjórnarskránni vildi einn af þessum þremur ekki svara spurningunni með já eða nei og það var hv. formaður fjárlaganefndar sem spurði lögmanninn beint út: Viltu svara þessari spurningu játandi eða neitandi? Hún sagði: Nei, ég treysti mér ekki til þess.

Ef við förum yfir málin voru útskýringar þessara þriggja lögmanna mismunandi og þeir byggðu niðurstöðu sína á mismunandi forsendum. Ég óskaði líka eftir því við alla þá sem þarna voru að þeir mundu leggja fram afstöðu sína skriflega. Ég sagði við þá: Þið áttið ykkur á því að ef þið gerið það ekki munu þingmenn einfaldlega túlka orð ykkar út og suður og það verður ekki umræðunni til framdráttar. Þessi þrjú, fyrir utan Sigurð Líndal lagaprófessor, sögðust ekki treysta sér til þess á þeim tímapunkti og nefndu að þau hefðu fengið afar lítinn tíma til að fara yfir málið og það væri einfaldlega af þeirri stærðargráðu að það þyrfti að skoða í betra samhengi. Gefum okkur að þessir þrír lögmenn, en tveir þeirra höfðu einhverja aðkomu að setningu laganna, mundu leggja fram eitthvað skriflegt, þá skiptir það í sjálfu sér engu máli vegna þess að fjórir af virtustu og reynslumestu lögfræðingum landsins — tveir virtir lagaprófessorar með mikla reynslu og sem lögmaður held ég að ég geti leyft mér að fullyrða að allir þessir menn njóta virðingar í sinni starfsstétt — meta það svo að Icesave-samningarnir brjóti hugsanlega gegn stjórnarskránni. Þá tel ég (AtlG: Þetta er rangt.) einfaldlega að við sem sitjum á Alþingi, hvort sem við erum lögfræðimenntuð eða ekki, eigum að kalla eftir ítarlegri úttekt á því hvort svo sé hvað sem mönnum finnst um þá niðurstöðu.

Ég bendi á að þegar upp kom ágreiningur um hvort okkur væri heimilt að gefa frá okkur dómsvaldið þegar samkeppnislögin voru sett í kringum árið 2004 var kallað eftir ítarlegu áliti frá þáverandi lagaprófessor Davíð Þór Björgvinssyni um hvort íslenska þjóðin væri að gefa frá sér dómsvaldið í þeim málum. Það var gert, menn geta skoðað þá niðurstöðu og farið yfir hana.

Ég spyr: Væri ekki ráð að fara þannig með þetta stóra mál? Við skulum líka hafa í huga að það er nógur tími til stefnu, og hefur alltaf verið. Stjórnarliðar hafa frá upphafi málsins haldið því fram að hér lægi lífið við. Alls kyns hræðsluáróður hefur dunið á þjóðinni, þingmenn settir í mikla pressu til að klára álit, reynt að keyra málið í gegn með einum eða öðrum hætti. Þá er svolítið athyglisvert að hlusta á það sem þessir lögfræðingar sögðu í nefndinni, þeir sögðu nefnilega að sú málsmeðferð sem hefði átt sér stað í Icesave-málinu mætti ekki undir neinum kringumstæðum vera fordæmisgefandi fyrir sambærileg mál af hvaða stærðargráðu sem þau væru í framtíðinni. Með öðrum orðum segja þessir lögmenn að málsmeðferðin hafi ekki verið nægilega góð, hún hefur reyndar verið fyrir neðan allar hellur.

Fjárlaganefnd neitaði að ræða efnahagslegu fyrirvarana frekar, neitaði að ræða álit efnahags- og skattanefndar. Við sögðum: Ef þið viljið ekki ræða þetta málefnalega í fjárlaganefnd þýðir það einfaldlega að málið verður rætt í þingsal út í hörgul. Og það er það sem við erum að gera.

Förum aðeins yfir þetta. Hv. varaformaður fjárlaganefndar, Björn Valur Gíslason, sagði að þetta væri ekki alls kostar rétt hjá þessum lögmönnum, fjárhæðin væri mjög skýr. Ég hef ekki heyrt neinn lögmann halda því fram að fjárhæðin sé algjörlega skýr og það liggi nákvæmlega fyrir hversu há greiðslubyrði íslenska ríkisins yrði. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann halda því fram. Það liggur fyrir að það verður greitt úr því hvort neyðarlögin standist eða ekki, það hefur áhrif á Icesave-samningana. Það liggur fyrir að þar sem fjárhæðin er bundin í íslenskar krónur skiptir gengisáhættan gríðarlega miklu máli. Það liggur líka fyrir að það á eftir að skera úr um hvernig útgreiðsla úr þrotabúi Landsbankans á að vera. Hvernig er þá hægt að halda því fram að þetta sé ákveðin fjárhæð? Það er einmitt það sem lögmennirnir benda á, óvissa um hversu háar fjárhæðir koma til með að lenda á komandi kynslóðum er einfaldlega svo mikil að þeir telja að það þurfi að skoða gaumgæfilega hvort sú ákvörðun fari ekki í bága við stjórnarskrána.