138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:14]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég held að þjóðin skilji alveg að henni er alltaf betur borgið ef við göngumst ekki við þessum skilyrðum. Nú þegar hafa nærri því 23.000 manns skrifað undir hjá Indefence, um 10% þjóðarinnar. Við gerum náttúrlega ekki ráð fyrir að ung börn séu þarna þannig að þetta er væntanlega að mestu leyti fullorðið fólk.

Ég tek undir með hv. þingmanni um að það er gríðarlega mikilvægt að við förum í það að kynna stöðuna og tala við fólk annars staðar, bæði í Bretlandi og Hollandi og jafnvel víðar um Evrópu, kynna þá stöðu sem við erum í sem er nánast fordæmalaus, að heilt efnahagskerfi hrynur, og gera fólki hreinlega grein fyrir því að við munum ekki ráða við þessar skuldbindingar. (AtlG: Þú hefur sagt þetta oft áður.) Já. (AtlG: Þetta er ekkert nýtt.)

Þingmaðurinn nefndi Buchheit og ég heyrði því fleygt í þinginu einhvern tímann í sumar að í fyrrahaust hefði komið til greina að fá hann til að aðstoða okkur við þetta mál en hann hefði þótt of dýr. Telur hv. þingmaður að það sé þess virði að reyna aftur?