138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti þessi fyrirspurn vera ansi undarleg vegna þess að við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að sólin komi upp á morgun. Við höfum verið bjartsýnir og við höfum reynt að telja kjark í íslensku þjóðina. Það hefur ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar ekki gert með endalausum dómsdagshótunum ef við samþykkjum ekki Icesave. Það er rétt hjá hv. þm. Atla Gíslasyni að hér eru háar greiðslubyrðir út af öðrum lánum. Ég dreg það ekkert í efa. En hvað sem honum finnst um þá viðbót og að hún sé lítils virði í hinu stóra samhengi skiptir hún engu að síður gríðarlegu máli. Ég trúi ekki öðru en þingmaðurinn sé mér sammála um það.

Á þessum tímum eiga Íslendingar að sýna kjark. Þeir eiga að sýna að þeir eru sjálfstæð þjóð og enginn getur lofað því að Alþingi Íslendinga komist að fyrir fram ákveðinni niðurstöðu. Ef forráðamenn þjóðarinnar hafa lofað einhverju úti í heimi, brýtur það einfaldlega í bága við þau lög og þær reglur sem við setjum okkur á Alþingi. Það var samþykkt á Alþingi að ganga til samninga með skilyrðum. Lögmaðurinn veit vel … (Gripið fram í: Með engum skilyrðum …) Brussel-viðmiðin voru þarna og þau eru skilyrði. Brussel-viðmiðin voru ekki inni í samningunum þegar þeir komu til Íslendinga, hvergi nokkurs staðar. Er það þannig, hv. lögmaður, (Forseti hringir.) að ef tveir aðilar setjast niður og semja, á annar aðilinn þá algerlega að lúffa?