138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:03]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum við 2. umr. breytingu á lögum nr. 96/2009, um hvort heimila eigi ríkisábyrgð á lánum til Hollendinga og Breta vegna Icesave-reikninganna svokölluðu, lána sem íslenska þjóðin stofnaði ekki til heldur óábyrgir bankamenn gamla Landsbankans í því umhverfi sem hér var skapað og varð að veruleika með tilskipun Evrópusambandsins. Við þetta glímir Alþingi nú og sitt sýnist hverjum.

Við ræðum stórar og miklar upphæðir sem komandi kynslóðir eiga að greiða ef þetta frumvarp verður að lögum. En það er eitt, herra forseti, sem hefur angrað mig undanfarna daga og ekki verið tekið með inn í þessa umræðu og tengist líka Landsbankanum, það að á dögunum gaf nýi Landsbankinn út 260 milljarða kr. skuldabréf til gamla Landsbankans og sem á komandi árum verður breytt í gjaldeyri. Í fyrstu þegar þetta 260 milljarða kr. lán var greitt frá nýja bankanum yfir í þann gamla héldu menn að skuldabréfið yrði strax baggi á krónunni. Svo er ekki. Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu er sagt að ekki verði byrjað að greiða vexti og afborganir af þessu láni upp á 260 milljarða kr. fyrr en árið 2014 þannig að þjóðarbúið, íslenska ríkið, hefur fengið gálgafrest á þessu láni. Hins vegar mun þessi frestur hafa það í för með sér, hæstv. forseti, að áfallnir vextir og afborganir á höfuðstól lánsins mun dreifast yfir á færri ár og því verða árlegar greiðslur enn hærri þegar byrjað verður að greiða af láninu 2014, þ.e. 60–70 milljarðar. Hafa menn íhugað hvert erlent greiðsluflæði verður á árunum 2014–2018 ef við tökum saman greiðslur ríkis og sveitarfélaga, greiðslur af Icesave og greiðslur vegna þessa 260 milljarða kr. skuldabréfs gamla Landsbankans sem gefið var út af nýja Landsbankanum?

Erlendir vextir og afborganir þessara aðila verða um 60 milljarðar nettó á næsta ári en þegar við bætast afborganir af Icesave-skuldbindingum 2016 og 2017 og af bréfi Landsbankans 2014 hækkar þessi tala hins vegar upp í 150 milljarða kr. Á árunum 2014–2018 verður erlent greiðsluflæði íslenska ríkisins 150 milljarðar íslenskra króna fært yfir í gjaldeyri á þeim tíma. Hvernig í veröldinni á íslenska þjóðin, íslenska ríkið, að geta staðið undir þessum skuldbindingum? Þetta skuldabréf nýja Landsbankans til gamla Landsbankans hefur ekkert verið rætt í þessari umræðu allri, enda svo sem ekki ríkisábyrgð á því með sama hætti og þessum lánum, en þetta er hluti af þeim greiðslum sem koma til á árunum 2014–2018. Eftir 2018 lækkar þessi 150 milljarða kr. upphæð niður í 100 milljarða kr. Svo tala menn um að það eigi að afgreiða þetta sisona frá Alþingi.

Við gátum sætt okkur við, hæstv. forseti, þau skilyrði eða þá fyrirvara, lagalegu og efnahagslegu, sem við settum í ágúst 2008. Þeir eru horfnir í dag og skuldbindingar íslenska ríkisins, hæstv. forseti, eru bæði óljósar og ófyrirsjáanlegar, bæði hvað varðar fjárhæðir og tímalengd. Svo leyfir hv. varaformaður fjárlaganefndar, Björn Valur Gíslason, sér að koma í ræðustól og segja að upphæðirnar séu klárar í erlendri mynt og að upphæðirnar séu klárar í íslenskum krónum frá 22. apríl. Það eru engar upphæðir klárar, hæstv. forseti, í fyrsta lagi vegna þess að enginn veit hvaða heimtur verða af eignum Landsbankans en það er alveg ljóst að við á Alþingi erum að leggja til með þessu frumvarpi, eða hæstv. ríkisstjórn og þá væntanlega fyrir tilstilli stjórnarliða, að Íslendingar skuldbindi íslenska ríkið um óljósar og ófyrirsjáanlegar fjárhæðir og tímalengd sömuleiðis. Og menn tala um að þetta fari ekki í bága við stjórnarskrá Íslands. Það kann að vera að svo sé ekki, en þetta brýtur í það minnsta í bága við þágu þjóðarinnar. Það er nokkuð ljóst. Að því ætlar sá þingmaður sem hér stendur ekki að standa.

Það væri óskandi að einhver hv. þingmaður úr stjórnarliðinu gæfi mér upplýsingar um hvernig hann teldi að við gætum greitt þessar skuldbindingar Icesave og hvernig við getum greitt þessar skuldbindingar þessa ágæta láns frá nýja Landsbankanum yfir í þann gamla þegar það kemur til greiðslu 2014–2018. Hvernig á íslenska ríkið að fara að því að greiða 150 milljarða kr. í vexti og afborganir á þeim tíma? Við erum í dag með 180 milljarða kr. halla á ríkissjóði sem reyna á að skera af næstu 3–4 árin með ótrúlegum skattahækkunum og nálgunum sem vinstri menn bjóða upp á. Hvernig ætla þeir sér að ná þessu árin 2014–2018? Þetta er ekki langt inn í framtíðina.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki sem hægri maður og kjósandi Sjálfstæðisflokksins um áratugaskeið að firra mig og minn flokk ábyrgð á því ástandi sem ríkir í samfélaginu, hef aldrei gert og mun ekki gera. Minn flokkur er hluti af því umhverfi sem skóp það umhverfi sem við búum við. Hann tók þátt í einkavæðingu bankanna og hann er hluti af því. Á því ber ég ábyrgð sem hægri maður og kjósandi Sjálfstæðisflokksins. En ég ber ekki og ætla aldrei að bera ábyrgð á því Icesave-frumvarpi sem hér liggur fyrir. Það frumvarp er alfarið á ábyrgð ríkisstjórnarflokka Vinstri grænna og Samfylkingar og þeirra stjórnarliða sem greiða munu því atkvæði. Þeir skipuðu samninganefndina, þeir skrifuðu undir, þeirra er ábyrgðin og ábyrgðina skulu menn axla þegar hún blasir við. Aðrir verðar að bera ábyrgð á því sem þeir stóðu að.

Hæstv. forseti. Þær fjárhæðir sem verið er að ræða, hvort heldur er í Icesave og afborgunum og vöxtum eða skuldabréfi nýja Landsbankans sem gefið var út til gamla Landsbankans upp á 260 milljarða kr., erum við að tala um afborganir á árunum 2014–2018 upp á 150 milljarða kr. Það er of mikið, það mun íslensk þjóð ekki ráða við þrátt fyrir að ég hafi tröllatrú á þjóðinni og landsmönnum öllum. Sumar byrðar eru þannig að þær verður erfitt að yfirstíga.