138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:25]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Á sumarþinginu eftir mjög langa og stranga vinnu var kominn ákveðinn fyrirvari við það frumvarp sem fór að lokum hér í gegn. Reyndar greiddum við Framsóknarmenn atkvæði gegn þeirri niðurstöðu, við töldum að ekki væri nægilega langt gengið. Við óttuðumst einmitt að á þetta yrði litið sem tilboð sem okkur fannst ekki hafa gengið nærri nógu langt, þetta væri tilboð um nýjar samningaviðræður. Við vorum á þeirri skoðun þá að það þyrfti að ganga til nýrra samninga.

Vegna orða hv. þm. Atla Gíslasonar áðan vil ég minna á að framsóknarmenn töldu á síðastliðnu hausti að hér hefði átt að standa miklu kröftugar upp og mótmæla þeim hryðjuverkayfirlýsingum og ákvörðunum sem Bretar dembdu yfir okkur með því að beita hryðjuverkalögum á Landsbankann og Ísland. (SÞS: Blessuð sé minning Guðna.) (Forseti hringir.) Og blessuð sé minning Guðna, já. Við hefðum betur hlustað (Forseti hringir.) á orð hans um þá í fyrra, (Forseti hringir.) við stæðum kannski betur núna. (Forseti hringir.)