138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:29]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu hafa allir, og ég þar með talin, áhyggjur af íslensku efnahagslífi. En í bréfi Seðlabankans, sem er frá 9. október, áþekkt og bréf sem fjárlaganefndin fékk inn á liðnu sumri, er sagt að að öllum líkindum muni lánshæfi lækka. Jafnframt er sagt að hugsanlega gangi efnahagsáætlunin ekki eftir. Það var líka sagt í sumar. En ég vil segja, hæstv. forseti, við hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur varðandi gjaldeyrishöftin, hvort þau sem slík muni hafa áhrif í þessa átt eða hina, að við þurfum að greiða Icesave-skuldirnar ásamt skuldabréfi frá Nýja Landsbankanum yfir í gamla Landsbankann. Á árunum 2014–2018 þurfum við að greiða 150 milljarða. Þá erum við einfaldlega að tala um gjaldeyrishöft næstu 20 árin, hv. þingmaður.