138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:52]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í 40. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að hvorki megi skattleggja þjóðina né skuldsetja án þess að til komi lagaheimild. Það er svolítið merkilegt að þrír lögmenn skuli gera þetta að umtalsefni í Morgunblaðinu þegar ágreiningurinn snýst í raun og veru ekki um nokkurn skapaðan hlut nema einhverjar fílósófískar vangaveltur um hvað geti talist lagaheimild í hefðbundnum skilningi. Það er eini vafinn sem hefur verið settur fram um þetta mál.

Sjálf hef ég unnið eið að stjórnarskránni. 1. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um það að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn og í 2. gr., ekki þeirri 1. eins og kom fram hér áðan, er kveðið á um löggjafarhlutverk Alþingis. Nú er sú staða uppi að 16 þingmenn af 63 halda Alþingi Íslendinga í gíslingu og hindra meiri hluta þingsins í að sinna stjórnarskrárbundnu hlutverki sínu. Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af þessu hugsanlega stjórnarskrárbroti?