138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:56]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi áðan hugsanlegt stjórnarskrárbrot sem fælist í því lagafrumvarpi sem hér er um að ræða og vitnaði þar til greinar sem Sigurður Líndal lagaprófessor skrifaði ásamt tveim öðrum lögmönnum í dagblað. Sömu lögmenn lögðu greinargerð fyrir fjárlaganefnd núna í vikunni, á þriðjudaginn. Sigurður Líndal hafði verið beðinn að leggja fram greinargerð vegna greinaskrifa sinna um sama efni. Niðurstaðan varð sú að þeir þrír lögðu saman fram greinargerð hvað þetta varðar.

Í niðurlagi greinarinnar segir þar sem verið er að ræða um hugsanleg stjórnarskrárbrot og rétt til framtíðar, eins og margoft hefur verið sagt, með leyfi forseta:

„Loks má halda því fram að verið sé að ganga á lýðræðislegan rétt kjósenda með því að binda hendur Alþingis gagnvart erlendum ríkjum til ófyrirsjáanlegrar framtíðar við skuldbindingar sem geta reynst þjóðarbúinu ofviða …“

Mér fannst dálítið vel í lagt hjá laganna mönnum að taka svo sterkt til orða. Meira að segja stjórnarandstaðan á þinginu tekur ekki svona sterkt til orða, stjórnarandstaðan talar yfirleitt um að það taki 150–160 ár að borga þessi lán, þ.e. kynslóðin okkar, kynslóðir barnanna þeirra og kynslóðir barnabarnanna þeirra. Um það er talað. Lagamennirnir tala um ófyrirsjáanlega framtíð, bara út í eilífðina. Það er enginn endir á því. Aðspurður kvaðst Sigurður Líndal reyndar ekki búa yfir neinum upplýsingum sem stönguðust á við aðrar upplýsingar sem voru lagðar fyrir fjárlaganefnd um að þetta hefði ákveðinn endi og sagðist bara byggja þetta á umræðum sem hann hefði heyrt utan að sér í samfélaginu. Þetta er varla boðlegt álit til fjárlaganefndar. Ég spyr hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson (Forseti hringir.) hvort hann búi yfir öðrum upplýsingum (Forseti hringir.) en voru lagðar fyrir fjárlaganefnd því að engar (Forseti hringir.) þeirra benda til þess að þetta sé til ófyrirsjáanlegrar framtíðar.