138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sat ekki þennan fund fjárlaganefndar sem hv. þingmaður vitnar hér í og get því ekki með sama hætti farið yfir þau samtöl sem fóru fram á þeim fundi. Það sem ég hef hins vegar í höndunum, hv. þingmaður, er grein sem þrír virtir lögmenn skrifuðu í Morgunblaðið. Ég er sammála því að þetta getur haft þá þýðingu að verið sé að leggja á þjóðina skuldbindingar um ófyrirsjáanlega framtíð. Af hverju er það? Það er vegna þess að samkvæmt samningnum, samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir, getur þetta tekið engan enda, þ.e. þetta geta orðið endalausar greiðslur. Þær framlengjast um fimm ár, önnur fimm ár, önnur fimm ár o.s.frv.

Ég vil meina að það sé sú túlkun sem hér er átt við. Ég get ekki túlkað þau orð og samtöl sem fram fóru á fundi fjárlaganefndar. Meðal þingmanna sem sátu þann fund eru uppi önnur sjónarhorn og annars konar túlkun en kemur fram hjá hv. þingmanni og varaformanni fjárlaganefndar. Ef það ríkir vafi um þetta, hv. þingmaður, tel ég að það verði að skoða og leita formlegs álits. Það mun hjálpa umræðunni að mínu viti og það mun hjálpa þingmönnum til þess að komast til botns í því hvort þarna sé verið að brjóta stjórnarskrána eða ekki. Við getum haldið áfram að karpa hérna með ekkert í höndunum um slíka túlkun eða slíka niðurstöðu en ég skil þennan samning og túlka hann þannig að hann get lagt á þjóðina skuldbindingar um ófyrirsjáanlega framtíð.