138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:01]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Á þessum fundi fjárlaganefndar mættu fjórir valinkunnir lögmenn, líklega, eins oft er og sagt í þessum stól, virtustu lögmenn landsins, eins og títt er með þá sem koma á fundi nefnda Alþingis. Ég ætla ekkert að efast um það. Þrír af þessum fjórum töldu það hafið yfir allan vafa (SDG: Það er ekki rétt.) að þetta frumvarp stangaðist á við stjórnarskrá.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sat ekki þennan fund. Björg Thoroddsen sat hann hins vegar, hún er lögmaður. Hún sagði orðrétt: „Að mínu mati stefnir frumvarpið fullveldi Íslands ekki í hættu.“

Ragnhildur Helgadóttir sat þennan fund, ekki Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem hér hefur verið að gjamma fram í. Hún sagði: „Ég tel að frumvarpið stangist ekki á við stjórnarskrána.“

Eiríkur Tómasson hæstaréttarlögmaður sat þennan fund og hann sagði: „Það er eindregin skoðun mín að frumvarpið standist stjórnarskrá Íslands. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að frumvarpið stenst stjórnarskrá Íslands.“

Einn lögmaður var annarrar skoðunar, hann heitir Sigurður Líndal.