138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hin spurningin mín var hvort hann telur e.t.v. eins og ég að hér sé fjöldinn allur af þingmönnum sem styður þetta mál sem einfaldlega skilur það ekki. Það hefur komið í ljós þegar einhverjir ráðherrar hafa verið að opna munninn um það og einhverjir embættismenn — ja, ekki einhverjir embættismenn — það var greinilegt á þeim embættismönnum sem kynntu það fyrir hönd Íslendinga erlendis að þeir virtust ekki skilja málið. Ég mundi gjarnan vilja fá álit hv. þingmanns á því og eins álit hans á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið í þessu máli. Nú er hann eins og ég að súpa af þeim beiska kaleik að vera í stjórnarandstöðu, sem er öðruvísi en hann er vanur. Menn reka sig þá kannski frekar á það en áður hér fyrr hvers konar vinnubrögð er hægt að viðhafa til þess að koma málum í gegn. Ég verð að segja eins og er að sem nýr þingmaður hefur mér blöskrað alveg gjörsamlega stjórnin hér á þinginu og ég held að þetta hljóti að vera stjórnlausasta stofnun á öllu landinu. Það er grafalvarlegt mál því að hér fer lagasetningin fram og við vorum að karpa hver við annan klukkan að verða hálfsex í morgun eftir að hafa verið á fundum frá því hálfátta morguninn áður.

Það segir sig sjálft að það er ekki hægt að útbúa vandaða lagasetningu á svoleiðis plani, það verður ekkert úr því nema einhvers konar óætt spaghettí eða það er alla vega hætt við því. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvort við munum ekki reyna að breyta þessum hluta af þingstörfunum.