138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson hefur komið inn á mjög mikilvæga punkta sem tengjast skuldaþoli þjóðarinnar. Það er ljóst miðað við þá fundi sem til að mynda Hreyfingin hefur átt með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fulltrúum hans sem og framsóknarmenn, að það er verið að undirstrika það að skuldaþolið sé ekki 250%, það sé ekki 310% heldur líklega 350% af landsframleiðslu. Þess vegna kemur manni á óvart þegar hæstv. fjármálaráðherra er spurður að því hvort hann hafi þessar upplýsingar að hann skuli ekki hafa þær. Þá hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort þeir séu ekki að tala saman, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, eins og þeir eiga að gera, en ég ætla ekki að fara út í þá sálma. Aðalmálið er að skuldaþol íslenska ríkisins og þjóðarinnar er leynt og ljóst að aukast og hækka. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort sú efnahagslega óvissa sem er svo greinileg, til viðbótar við þær skuldir sem nú þegar eru á ríkinu, stuðli ekki að því að taka verði tillit til þeirra atriða sem snerta stjórnarskrána, þ.e. þær ábendingar sem Sigurður Líndal hefur sett fram. Það eru aðrir stjórnlagafræðingar sem eru greinilega ekki sammála, en ég held engu að síður að það sé svo mikill vafi þegar þessar tölur eru orðnar svona miklar að við verðum að fara yfir það.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort þetta séu ekki atriði sem hv. fjárlaganefnd verði að fara mjög gaumgæfilega yfir og fá ítarlega greiningu á af hálfu Seðlabankans, sem virðist ekki vilja gefa út sínar skoðanir á þessu máli fyrr en búið er að ganga frá því. Er ekki ljóst að fjárlaganefnd verður að fara ítarlega yfir einmitt þessi atriði, skuldaþolið, og fá til að mynda líka álit efnahags- og skattanefndar þar sem menn virðast hafa mjög skiptar skoðanir, skoðanir (Forseti hringir.) sem ekki má síðan fara yfir inni í fjárlaganefnd?