138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:51]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti mjög áhugavert að hlusta á umfjöllun hv. þingmanns um mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á skuldaþoli Íslendinga. Hv. þingmaður rakti hvernig skuldaþolið í bókum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefði smám saman verið að hækka, hann fór líka yfir það hvernig sjóðurinn hefði svarað því hvernig á því stæði að við gætum núna skyndilega staðið undir miklu meira skuldum en áður var talið. Svörin, eins og hv. þingmaður rakti, voru einfaldlega þessi: Eftir því sem þið herðið betur að ykkur sultarólina, eftir því sem þið notið minna til neyslu, eftir því sem skattarnir eru hærri, þeim mun meira getið þið lagt af mörkum til að standa undir skuldbindingum þjóðarinnar, hvort sem það er Icesave eða eitthvað annað. Þetta er út af fyrir sig sjónarmið en ef menn gefa sér að endalaust sé hægt að ganga á þanþol almennings og fyrirtækja með aukinni skattbyrði og lakari lífskjörum horfa menn fram hjá því sem er augljóst, að fyrr eða síðar greiða menn atkvæði með fótunum og fara einfaldlega af landi brott.

Mig langaði þess vegna í þessu sambandi að vekja athygli hv. þingmanns á mjög athyglisverðu áliti 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar sem þau hv. þingmenn Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson hafa ritað undir þar sem þau vekja athygli á þessari mótsögn í afstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem taldi í nóvember 2008 að 240% skuldahlutfall væri augljóslega óviðráðanlegt en eftir ár var sjóðurinn búinn að komast að þeirri niðurstöðu að 310% hlutfall væri augljóslega viðráðanlegt. Niðurstaða þeirra er sú, með leyfi forseta, að það sé ekki hægt að útskýra þessa stefnubreytingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nema með því að Bretar og Hollendingar hafi beitt pólitískum þrýstingi í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að tryggja að íslenska ríkið taki á sig Icesave-skuldbindingarnar. Ég hefði gaman af, í ljósi þess að hv. þingmaður er greinilega búinn að velta þessu máli fyrir sér, að heyra viðhorf hans og álit á þessari tilgátu hv. þingmanna Lilju Mósesdóttur og Ögmundar Jónassonar.