138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir fyrirspurnirnar. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er, eins og hann sagði, sjónarmið út af fyrir sig að hægt sé að hugsa sér að endalaust sé hægt ganga lengra í því að herða sultarólina og kvelja þannig þjóðina til að skila meiru af sér, greiða hærri skuldir. Ég held hins vegar að það séu takmörk fyrir því hve langt er hægt að ganga og eins og ég sagði í ræðu minni höfum við framsóknarmenn haft af því nokkrar áhyggjur um langt skeið að það sé nú þegar gengið of langt. Við hefðum viljað fara í aðgerðir sem mundu hjálpa skuldsettum heimilum ekki síst og í aðrar efnahagsaðgerðir sem mundu stuðla að því að atvinnuuppbygging færi af stað, þannig að hin svokölluðu hjól atvinnulífsins mundu rúlla af stað því að þá gætum við vissulega farið að gera ýmsa hluti, því að ég tek undir það sem kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra að sóknarfæri á Íslandi eru gríðarlega mörg og góð.

Varðandi þau álitamál sem voru reifuð í minnihlutaáliti hv. þingmanna Lilju Mósesdóttur og Ögmundar Jónassonar í efnahags- og skattanefnd, þá fannst mér þar einnig þegar ég las það mjög áhugaverðir hlutir. Ég saknaði þess og satt að segja skil það ekki að þau atriði skuli ekki hafa verið tekin til efnislegrar umræðu í fjárlaganefnd heldur hafi málið hafa verið tekið út án þess að vera tekið til slíkrar umræðu.

Það sem þau nefna þar um pólitískan þrýsting Breta og Hollendinga á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er náttúrlega þannig að það eru satt best að segja allir orðnir margsaga í því máli, hver beitir hvern þrýstingi. Þetta virðist vera nánast þannig að Einbjörn þrýstir á Tvíbjörn og Tvíbjörn á Þríbjörn o.s.frv. og að lokum verður einhver til þess að rjúfa vítahringinn. Þá kemur í ljós að enginn kannast við að hafa þrýst á nokkurn mann. Ég verð að segja alveg eins og er að ekkert í ræðum hæstv. forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar hefur skýrt það mál hver þrýsti upphaflega mest á hvern. En það er augljóst að einhvers staðar hefur verið beitt (Forseti hringir.) pólitískum kúgunum í þessu máli.