138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:58]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að við eigum auðvitað að fara varlega og grandskoða og lesa þau skjöl og gögn sem koma frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það þekkja auðvitað allir, til að mynda hafa verið sýndir í sumar og haust sjónvarpsþættir sem gera það að verkum að maður verður verulega hugsi yfir því að þessi sjóður skuli stýra efnahagslífinu hér með ríkisstjórninni eða gegnum ríkisstjórnina.

Varðandi skuldaþolið og greiðslugetuna þá hefur auðvitað komið í ljós að það er erfitt að henda reiður á þessu. Ég held að það sé mjög mikilvægt, ekki síst þegar málið er svona stórt og umfangsmikið, að það liggi miklu betur fyrir hvað við erum að fara að greiða. Ég hefði þess vegna talið eðlilegra, af því að ég hef ekki skynjað að það sé neinn sérstakur þrýstingur — það neita því allir að það sé einhver sérstakur þrýstingur að klára málið, það vill a.m.k. enginn koma hér upp og ræða það efnislega — að málinu yrði einfaldlega ýtt til hliðar eins og sérfræðingar hafa bent á. Vil ég þá rifja upp orð Lees Buchheits sem lagði til að menn mundu reyna að átta sig á því hvert verkefnið væri. Fyrst og fremst ættum við að reyna að endurreisa efnahaginn í landinu og síðan að átta okkur á því hvernig við gætum náð utan um þetta og þá og aðeins þá gætum við farið og samið við Breta og Hollendinga, því að þá vissum við eitthvað um það sem við værum að fara að semja um.

Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það gæti verið góð hugmynd að setja nú þegar á laggirnar rannsóknarnefnd sem færi yfir þetta mál frá A til Ö, því satt best að segja er þetta risavaxið mál og eins og allir þekkja hefur verið leyndarhjúpur yfir mörgum atriðum í því (Forseti hringir.) og við þingmenn höfum þurft að sækja upplýsingar í lokaðar möppur sem við fáum að lesa undir eftirliti. Ég held því að það væri æskilegt að fyrr en seinna mundum við koma á slíkri rannsóknarnefnd.