138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Þetta er þriðja ræða mín í þessu máli og þær tvær sem ég hef þegar flutt hafa verið í númeruðum liðum. Ég hef reynt að rekja allra helstu atriði þessa máls, þau atriði sem alls ekki má líta fram hjá og raunar er hvert atriði þess eðlis að hægt væri að hafa um það heila umræðu. Ég hef ekki náð að fara í gegnum nema 33 atriði og er sem sagt kominn að nr. 33 en ætla þó að skjóta hérna upp fyrir fertugasta atriðinu. Það kom til tals í stuttu andsvari frá hv. þm. Atla Gíslasyni, sem ég sá hér rétt áðan í hliðarherbergi, en er nú horfinn þegar ég þarf á honum að halda. Þetta er atriði sem hefur heyrst við og við og nokkrir hafa nefnt þetta. Gott ef títtnefndur efnahags- og viðskiptaráðherra, hæstvirtur, hefur ekki einmitt talað um þetta og þingmaðurinn sem stundum situr hér á horninu, hv. þm. Magnús Orri Schram, sem segir iðulega „vel mælt“ í lokin þegar félagar hans hafa sagt eitthvað. Þetta varðar það atriði að halda því fram að Icesave sé í raun bara lítill hluti þess vanda sem við erum að fást við. Þetta er að sjálfsögðu atriði af ætt spunaatriða en þau eru allnokkur, en þetta er líklegast það sem við höfum heyrt hvað oftast að undanförnu, að Icesave sé bara 15–20% af vandamálinu og bætist við svo stórt vandamál að við eigum ekki að vera að hafa af því neinar sérstakar áhyggjur. Reyndar bætti hv. þm. Atli Gíslason um betur og talaði um 10–15%.

Það er að sjálfsögðu fáránlegt að halda því fram að þar sem vandinn sem fyrir er sé svo stór þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því þó að gríðarlegt magn bætist við af skuldum. Þessar fullyrðingar eru einfaldlega rangar, útreikningarnir eru fráleitir. Ástæðan er sú að þarna er verið að bera saman annars vegar hugsanleg lán, lán sem við komum e.t.v. til með að taka hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum og víðar að, og fáum þá greidd, við fáum peningana í hendurnar og þeim verður vonandi ekki varið í vitleysu. Að minnsta kosti hefur hæstv. fjármálaráðherra lofað að fara vel með þessa peninga til þess að geta notað þá síðar til að endurgreiða lánin. Munurinn er sá að lánin sem tekin eru vegna Icesave fáum við ekki, við fáum ekki peningana. Í rauninni er þetta efnahagslega það sama og við tækjum við peningunum og settum þá alla í svarta ruslapoka, sem væru þá býsna margir — notumst frekar við gáma, við mundum fylla nokkra gáma af peningaseðlum og svo bara sturta þeim í sjóinn. Það er því ekki hægt að bera þetta saman, annars vegar lán, peninga sem við fáum, og hins vegar eitthvað sem er eingöngu hrein útgjöld.

Ekki nóg með það heldur ganga menn svo langt til þess að reyna að ná þessari spunatölu, 15–20%, að þeir bera annars vegar saman heildarupphæðina, þau lán sem við kunnum e.t.v. að taka frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og víðar og fáum peninga fyrir, og hins vegar það sem við í besta falli mundum borga af Icesave, ekki heildarhöfuðstólinn, eins fáránlegt og það er, að bera annars vegar saman heildarhöfuðstól lána sem við fáum en hins vegar það sem við í besta falli slyppum með að borga í vexti af Icesave. (PHB: Núvirt.) Núvirt, rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Þetta er ein af þessum fjölmörgu reiknikúnstum sem við höfum orðið vör við og sýnir og sannar, eins og svo margt sem hefur komið fram hér í dag og síðustu daga, að ekki veitir af þessari umræðu því að enn eru þingmenn að koma hér upp og halda þessu fram og virðast greinilega trúa því sjálfir. Það er áhyggjuefni. Ef þingmenn trúa slíku enn þá sjálfir hafa þeir ekki kynnt sér málið. Þá eru þeir við það að skuldsetja þjóðina upp á hundruð milljarða króna í erlendri mynt án þess að hafa kynnt sér málin. Það er alvarlegt mál og full ástæða til þess að menn haldi áfram að reyna að útskýra þetta á meðan staðan er sú.

Aftur að listanum, atriði 33. Það varðaði þessar ESB-reglur — ég var reyndar aðeins byrjaður að fjalla um þetta í síðustu ræðu — sem Icesave og aðrir lánareikningar íslensku bankanna byggðu á og svo þær umræður sem farið hafa fram um það að Evrópuríkin hafi ekki tekið undir það sjónarmið Íslendinga, þegar það var nefnt kurteislega á einhverjum fundum í Brussel, að við teldum okkur ekki skuldbundin samkvæmt Evrópureglunum til þess að setja ríkisábyrgð á þessar innstæður. Það var látið gott heita sem er stórfurðulegt því að auðvitað mun Evrópusambandið verja reglurnar sem það sjálft setti og allt bankakerfi Evrópusambandsins byggist á. Auðvitað mun þurfa eitthvað meira en að nefna hlutina kurteislega í Brussel til þess að fá Evrópusambandið til að viðurkenna að þeirra eigin reglur séu gallaðar. Það að halda því fram að staða okkar í málinu sé engin vegna þess að ekki hafi verið tekið undir skilning okkar á Evrópureglunum segir okkur ekki neitt. Menn gátu að sjálfsögðu gefið sér það fyrir fram að í fyrstu mundu menn hafna slíku og að reyna að halda því fram að þessi kvöð hvíldi á Íslendingum.

Atriði nr. 34 er reyndar skylt þessu því að það varðar Evrópusambandið og þá vinnu sem fer þar fram núna við að endurskoða reglur um innstæðutryggingar. Hvers vegna ætli Evrópusambandið sé að þessu? Það er vegna þess að það sá hvað gerðist á Íslandi, það sá að kerfið var gallað. Þess vegna er það núna að velta því fyrir sér hvað það geti gert, hvernig það geti lagað fyrirkomulagið þannig að það sama gerist ekki aftur.

Í þessu felst að sjálfsögðu viðurkenning á því að kerfið hafi verið gallað en hvernig bregðast Íslendingar við þessu? Bjóða þeir fram aðstoð við að taka þátt í því að reyna að laga kerfið þannig að læra megi af reynslu okkar hér? Nei, þeir bera því ekki einu sinni fyrir sig að ef kerfinu verður breytt þannig að síðar verði tryggingar með öðrum hætti, þ.e. það verði viðurkennt, sem nú stefnir augljóslega í, að ekki sé ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóðnum við þessar aðstæður, að þá fái Íslendingar eitthvað fyrir, komið verði til móts við okkur þegar formlega er búið að viðurkenna þetta eins og stefnir í. Nei, það er ekki einu sinni haft fyrir því að gera fyrirvara þar um. Og þó, það var reynt en það er eitt af þeim atriðum sem nú er verið að henda í burtu af hálfu Breta og Hollendinga og ríkisstjórn Íslands kemur hér og segir þinginu að það eigi bara að gera svo vel að samþykkja.

Atriði nr. 35 er mjög stórt atriði. Það varðar aðra rangfærslu sem við höfum oft heyrt haldið fram, að íslenska ríkið sé einvörðungu að tryggja þessa lágmarkstryggingu innstæðutryggingarsjóðanna, þessar 20 þúsund evrur. Það er einfaldlega ekki rétt. Bretar og Hollendingar, stjórnvöld þeirra landa, tóku upp á því hjá sjálfum sér að borga innstæðueigendum töluvert mikið umfram þessa lágmarkstryggingu. Í Bretlandi voru það, að mig minnir, 50 þúsund í fyrstu og svo held ég að þeir hafi í flestum tilvikum ákveðið að bæta allar innstæðurnar. Í Hollandi voru það 100 þúsund evrur sem menn fengu bættar. Íslendingar eru með óbeinum hætti að borga þetta fyrir Breta og Hollendinga, þessa einhliða ákvörðun. Þetta er þess vegna ekki bara spurning um þessar Evrópureglur og hvort þær eigi við, þessar 20 þúsund evrur, nei, það er það sem bresk og hollensk stjórnvöld ákváðu í auglýsingaskyni fyrir sjálf sig að bæta við. Það eru Íslendingar að borga og það gerist með því að því er breytt hvernig borgað er út úr þrotabúi Landsbankans þannig að Íslendingar fá ekki nema helminginn af því sem til er í þrotabúi gamla Landsbankans til að standa undir Icesave-skuldbindingunum. Þetta er gríðarlega stórt atriði sem gleymist alveg ótrúlega oft þegar menn eru að velta því fyrir sér hvað fáist upp í skuldir í bankanum. Íslendingar fá ekki nema helminginn af því sem fæst fyrir sölu eigna í þessum bönkum. Bretar og Hollendingar fá hinn helminginn. Hvað ætla þeir að gera við það? Þeir ætla að nota það til að standa undir því sem þeir tóku sjálfir einhliða ákvörðun um, burt séð frá öllum reglum Evrópusambandsins eða annarra — þeir einir tóku ákvörðun til að kaupa sér vinsældir meðal kjósenda en Íslendingar eiga að borga það líka.

Atriði nr. 36 er ekkert smáatriði. Það er kostnaðurinn sem óhjákvæmilega fellur á Íslendinga á hverjum einasta degi, 100 milljónir króna á hverjum degi, bara vaxtakostnaður af Icesave-láninu. Þá erum við ekki að tala um neinar endurgreiðslur í því heldur eingöngu vextina. Hvað ætli væri hægt að gera fyrir 100 milljónir króna á dag og hvað ætli þurfi til í niðurskurði ef menn ætla næstu árin á hverjum einasta degi að skera niður um 100 milljónir miðað við það sem ella hefði verið? Ég næ ekki að fara yfir það í þessari ræðu vegna þess hversu skammur tími er skammtaður til ræðuhalda. Ég verð þá að biðja virðulegan forseta að setja mig aftur á mælendaskrá því að ég held að í þessari ræðu hafi ég ekki komist yfir nema þrjú atriði (Forseti hringir.) af þeim grundvallaratriðum sem ég þarf að fara yfir í málinu.