138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta atriði með lánshæfismatið er í rauninni það eina sem stendur eftir af fjölmörgum atriðum sem ríkisstjórnin hefur reynt að nota sem ástæðu þess að það yrði að afgreiða Icesave með nákvæmlega þeim hætti sem Bretar og Hollendingar ætlast til. Í rauninni gengur þetta engan veginn eftir því að það er ein af fráleitari fullyrðingum ríkisstjórnarinnar í málinu að með því að auka enn á skuldirnar og með því að fjarlægja efnahagslegu fyrirvarana sem áttu að verja ríkið fyrir stórkostlegri áhættu séum við með því að bæta lánshæfi ríkisins. Þetta er fráleitt þegar maður hugsar hugsunina til enda, en þetta er svo sem í samræmi við annað sem hefur komið frá þessari ríkisstjórn, til að mynda þær fráleitu fullyrðingar að hugsanlega séu fyrirvararnir betri fyrir Íslendinga, ef eitthvað er, eftir að bresku og hollensku lögfræðingarnir voru búnir að tæta þá í sig. Svona er röksemdafærsla ríkisstjórnarinnar í þessu máli.