138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta skýra svar. Stundum held ég að ríkisstjórnarráðherrarnir vakni á hverjum morgni og beiti úllendúllendoff-aðferðinni varðandi það hvaða aðila þeir eigi að benda á núna sem þrýsta hvað mest á þá varðandi þetta mál allt saman. Einn daginn voru það Norðurlandaþjóðirnar, stundum eru það Hollendingar og Bretar og síðan er það Evrópusambandið.

Í gær sagði t.d. hæstv. fjármálaráðherra að aðilar innan Evrópusambandsins hefðu haldið uppi grímulausum hótunum um að láta Íslendinga hafa verra af ef Íslendingar drifu sig ekki í að klára Icesave. Síðan fengum við í dag þá vitneskju frá forsætisráðherra að hún væri allsendis ósammála því sem fjármálaráðherra hefði sagt, þetta væri allt einhver misskilningur. Enn og aftur hafa þau orðið margsaga, eins og við höfum sagt. Telur hv. þingmaður raunverulega hættu á því að við verðum beitt þrýstingi af hálfu þessara aðila ef við tökum okkur þennan lýðræðislega rétt (Forseti hringir.) sem við höfum á þinginu? Er hundrað í hættunni (Forseti hringir.) að klára málið núna eða næstu daga eða bíða með það fram á (Forseti hringir.) næsta ár?