138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Heimssýn ríkisstjórnarinnar og þingmanna hennar virðist stundum býsna undarleg. Þau ganga út frá því og tala þannig í ræðustól að alþjóðasamfélagið sé einhver skipulögð stofnun sem beiti ríkið refsingum ef það svo mikið sem biður um að lagalegur réttur þess sé varinn eða það fái a.m.k. að tala sínu máli. Ríkisstjórnin virðist halda að slíkri beiðni verði ekki bara mætt með hótunum heldur með einhvers konar efnahagslegum árásum, að samsæri lánshæfismatsfyrirtækja muni fella einkunnina þveröfugt við útreikningana og að Evrópusambandið, það samband sem Samfylkingin talar náttúrlega mest fyrir, sé í rauninni þess eðlis að ef við viljum virða lögin og ætlumst til að aðrir geri slíkt hið sama verði okkur refsað með ofbeldi. Hvers lags hugarfar er þetta eiginlega í garð þessa (Forseti hringir.) Evrópusambands sem Samfylkingin talar þó svo mjög fyrir?