138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði og ég mun fjalla nánar um það í síðari ræðum, þ.e. það að skuldirnar skuli vera í erlendri mynt og m.a. vegna þess sem hv. þingmaður nefnir, vegna áhrifanna á gengi krónunnar. Seðlabankinn gengst meira að segja við því, og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, að gengið verði veikt næstu árin. Hvað þýðir það? Það þýðir að íslenskt vinnuafl verður miklu ódýrara en annars staðar. Það er verið að festa Íslendinga í eins konar fátæktargildru sem birtist þegar Íslendingur ferðast til útlanda, gengur fram hjá matsölustað eða kaffihúsi og áttar sig á því að hann hefur ekki efni á að fara þar inn og borða vegna þess að hann á ekki nema íslenskar krónur. Þetta birtist líka í því að sama fólk hugsar á endanum: Hvers vegna á ég að búa áfram á Íslandi og fá miklu minna fyrir vinnuframlag mitt en ég gæti fengið einhvers staðar annars staðar? Þetta er rótin að fólksflótta og ég er dálítið hræddur um að hann geti orðið býsna mikill ef menn fallast á þessar Icesave-skuldbindingar.