138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Það kom fram í sumar í umræðunni um Icesave-samningana að það er í lögum um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta að tryggingarsjóðurinn má greiða kröfurnar í íslenskri mynt, það er í lögunum. Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort ekki hefði verið skynsamlegra að nýta sér það að greiða skuldina í íslenskri mynt til að taka þessa gengisáhættu út úr því. Þegar á það var bent skrifaði umræddur fjölfræðingur í fjármálaráðuneytinu og sló það náttúrlega út af borðinu, sagði að þetta væri eintóm vitleysa. Hefði ekki verið skynsamlegra fyrir hæstv. ríkisstjórn að taka mark á þessum ábendingum og beita þessu ákvæði um að greiða kröfurnar í íslenskri mynt til að taka ekki þessa áhættu? Við þurfum að vinna fyrir öllum þessum gjaldeyri og það mun reynast mjög erfitt, enda skulda líka margir mikið í erlendum gjaldmiðli sem er með sveiflur (Forseti hringir.) í íslenskum krónum eins og bara kvikasilfur.