138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:49]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ræðu hans og tek svo sannarlega undir það að þingmaðurinn er ekki í málþófi heldur kemur hann fram með mjög mikilvægt mál sem ég mundi gjarnan vilja sjá á dagskrá hér, vegna þess að þegar er búið að leggja fram frumvarp sem byggir á tilskipuninni sem hann vísar til, sem er uppfærsla á eldri tilskipunum varðandi innstæðutryggingarkerfið. Ég verð samt að viðurkenna að miðað við þá umræðu sem ég hef verið að kynna mér hjá Evrópusambandinu er ég ekki viss um að skilja megi tilskipunina á þann hátt sem þingmaðurinn gerir, að verið sé að tala um ríkisábyrgð á innstæðutryggingarkerfinu sjálfu þó að segja megi að skilningur þessara 27 ríkja virðist samt vera að það sé de facto ríkisábyrgð á öllum innstæðum í Evrópusambandinu. Það er alveg á hreinu miðað við reynsluna af bankahruninu hér að ekkert innstæðutryggingarkerfi getur eins og er staðið undir kerfishruni eða svo stóru hruni og varð hér þar sem um 85% af bankakerfinu hrundi — og þó að prósentan hefði verið aðeins lægri — bara út af því hvernig staðið hefur verið að fjármögnuninni.

Nú er einmitt mikil umræða í gangi um það hvernig standa eigi að fjármögnun á þessum sjóðum en tilskipunin sem við vorum að vísa til er ekki — annars vegar er verið að tala um upphæðina og hins vegar það að flýta að greiða út úr innstæðutryggingarsjóðunum. Það væri því ágætt ef þingmaðurinn hefði í andsvarinu tíma til að útskýra aðeins betur þennan skilning vegna þess að ég er hér með (Forseti hringir.) skýrslu sérfræðinga sem voru einmitt að fjalla um (Forseti hringir.) þetta og ég get ekki skilið að þeir séu að tala um að það sé ríkisábyrgð í tilskipuninni sjálfri.