138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er eins fyrir okkur komið, mér og hv. þm. Pétri H. Blöndal, að við þurfum líklega að halda nokkrar ræður áður en við höfum tíma til að fara í málþóf ef til þess kemur. Reyndar vil ég líka geta þess vegna yfirlýsinga sem komið hafa frá fulltrúum stjórnarliðsins þess efnis að ekkert nýtt komi fram í umræðunni. Ég held að þeim veiti ekki af að hlusta á ræður. Sjálfur er ég alltaf að læra eitthvað nýtt í þessari umræðu og ekki nóg með að ég reyni að fylgjast með ræðunum þegar þær eru fluttar hér heldur horfi ég líka stundum á þær á netinu til að ná betur inntakinu. Ég hugsa að ræða hv. þingmanns verði ein af þeim sem ég lít aftur á á netinu, enda var gerð mjög góð grein fyrir því hvers vegna það er óhugsandi að halda því fram að Íslendingar beri, íslenskir skattgreiðendur, lagalega ábyrgð á innstæðunum.

En ég velti því hins vegar fyrir mér í ljósi þess hvort það hafi ekki reynst stórskaðlegt fyrir hagsmuni Íslendinga að þetta virðist ekki hafa verið hugarfar þeirra sem áttu að verja hagsmuni okkar. Það birtist síðast í morgun hjá hæstv. forsætisráðherra þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar um fyrirvara sem ættu að tryggja lagalega vörn og því væri haldið til haga að við teldum okkur ekki skuldbundin, þá lýsti hæstv. forsætisráðherra því yfir, a.m.k. í tvígang í morgun, að við yrðum að fallast á kröfur Breta og Hollendinga nákvæmlega eins og þeir setja þær fram vegna þess að við yrðum að standa við skuldbindingar okkar. Þarna lýsir hæstv. forsætisráðherra því berum orðum að það hafi ekkert verið að marka yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra þess efnis að hún telji okkur ekki skuldbundin. Hún trúir því sem sé ekki sjálf. Ef viðsemjendur okkar vita það að ráðherrar ríkisstjórnarinnar trúa því ekki sjálfir sem þeir halda fram, hver er þá samningsstaðan? Raunar hefðu þeir ekki þurft annað en hlusta á þingræður hæstv. ráðherra í þinginu, því miður, til að átta sig á því að þeir hefðu ekki trú á málstaðnum, enda þekktu þeir hann ekki.