138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mannshugurinn virðist vera þannig gerður að hann á mun auðveldara með að skilja lágar tölur og samhengi þeirra en þær stóru. Það held ég að hafi oft verið vandamálið í umræðunni, að menn hafi ekki gert sér grein fyrir umfangi málsins einfaldlega vegna stærðar þess, og það eigi ekki hvað síst við um hæstv. ráðherra. Og jafnvel að menn leyfi sér að segja hluti eins og að ekki eigi að vera að ræða Icesave heldur eitthvað sem varði almenning í landinu og fjölskyldurnar, þó að sjálfsögðu sé líklega ekkert sem varði almenning og framtíð íslenskra fjölskyldna jafnmikið og þetta mál.

Nú veit ég að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur í gegnum tíðina verið mjög góður í því að setja peninga í samhengi við raunveruleikann. Því spyr ég hv. þingmann: 100 millj. kr. á dag bara í vexti, hvaða áhrif hefur það á samfélagið og fjölskyldurnar í landinu?