138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:13]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Þjónkun og undirlægjuháttur á ekki að ráða ferð Íslendinga inn í framtíðina. Hæstv. ríkisstjórn stundar nú þjónkun og undirlægjuhátt við erlendar þjóðir og setur með vilja sínum skuldaklafa á Ísland sem gengur ekki að fylgja eftir. Svo einfalt er málið, virðulegi forseti.

Enginn veit í dag hvað er rétt og hvað er rangt í því skipbroti fjármagnsmarkaða heimsins sem varð fyrir liðlega ári síðan og menn hafa ekki náð áttum til að geta skilgreint hvað er hvað og hvað er hvers. Þess vegna er engan veginn tímabært, virðulegi forseti, að samþykkja þann samning sem hér liggur fyrir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar Íslands. Fyrst þarf að skilgreina hlutina og hafa þá á hreinu áður en menn láta segja sér fyrir verkum í þeim efnum. Það er bara þannig. Þetta er almennt brjóstvit sem við verðum að taka tillit til, almenn þekking og skynsemi Íslendinga sjálfra til að verja hag heimila, fyrirtækja og þeirra grunnþátta sem þjóðfélagið byggir á. Hæstv. ríkisstjórn virðist vera heillum horfin í þessum efnum og ekki hugsa um afleiðingarnar af því sem sett er fram í því frumvarpi sem er hér til umræðu.

Gott dæmi um hversu langt er seilst er þegar fram koma hugmyndir ríkisstjórnarinnar um sjómannaafsláttinn, að seilast þannig inn á svið sjómannastéttarinnar, þeirrar stéttar sem hefur fyrst og fremst leitt Íslendinga til velsældar í fortíð, framtíð og nútíð. (Fjmrh.: Það er búið að ...) Við verðum að taka ákvarðanir, virðulegi og hæstv. fjármálaráðherra, sem duga til framtíðar, sem eru hugsaðar til framtíðar og sú stefna sem mörkuð er verður að skila árangri en það hefur fokið út í veður og vind hjá hæstv. ríkisstjórn Íslands og er nú Bleik brugðið (Gripið fram í.) þegar baráttumaðurinn hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon er dottinn niður í það duft að vera hálfgerður messagutti hjá Samfylkingunni á Íslandi í dag. [Hlátur í þingsal.] Þá er Bleik brugðið. (Fjmrh.: Ég er nú stýrimaður a.m.k.) Þá er ekki lengur gangur hestanna sem Ísland hefur verið stolt af, þetta er skjögt og það skilar ekki árangri. [Hlátur í þingsal.] Það er ljótt reiðlag og skilar ekki árangri. Takturinn er horfinn, baráttugleðin er horfin, viljinn er horfinn og það er bara afgreitt í kurteisisskyni til Breta og Hollendinga af öllum þjóðum og svo virðist sem hæstv. ríkisstjórn stefni að því að gera Ísland að eins konar efnahagsnýlendu Breta og Hollendinga. Frá Gamla sáttmála 1262 og til fullveldis 1918 voru Íslendingar nýlenduþjóð. (Fjmrh.: Nei.) Nánast, það má segja það fullum fetum. Þetta er eitthvað sem við verðum að hugsa um og gæta að. Ísland hefur aðeins verið sjálfstætt ríki, sjálfstæð þjóð í 65 ár (Fjmrh.: Gleymdu ekki þjóðveldinu.) og við verðum að taka upp þann hátt sem forfeður okkar ástunduðu og virtu. Þegar minnst er á þjóðveldið má líka tala um þá tíð á fyrstu öldum Íslandssögunnar. Það er rétt að rifja upp mikilvægi þess að við Íslendingar tökum tillit til þess að Ísland á fyrst og fremst samleið með sjálfu sér, ekki með Evrópuríkjunum, ekki undir forræði Evrópuríkjanna. Við þurfum að halda okkar striki og bera höfuðið hátt eins og Íslendingum sæmir.

Í Meðallandi var eitt sinn bóndi sem hét Gísli á Melhól. Hann var sjálfmenntaður dýralæknir, vatnaforingi, kaupmaður og bóndi. Hann var skyldur öllum konungum Evrópu og keisurum og páfum líka, engum undirmönnum eins og hann sagði. Hann var stórkostleg persóna. Eitt sinn kom ég til hans, virðulegi forseti, og hann vildi sýna mér inn á Kringlumýri við Breiðalækjarkvísl undir Eldhrauni. Þar er uppþornuð árkvísl sem heitir Breiðalækjarkvísl og sagt er að þar hafi Kári barist með Björn í Mörk sér að baki í þeirri frægu rimmu og höggvið allnokkra brennumenn. Gísli vildi sýna mér þennan stað. Hann hafði gengið við hækjur í mörg ár og aldrei sleppt hækjunum þegar hann fór á stjá. Við fórum í jeppa, virðulegi forseti, að Breiðalækjarkvísl og stoppuðum bílinn um 50 metra frá klettinum sem þar er, kletti sem er svona fimm sinnum fjórir metrar að ummáli og þrír metrar á hæð. Við gengum að klettinum, virðulegi forseti, og þegar við áttum 20 metra eftir hendir Gísli frá sér hækjunum. Mér varð bilt við, því ég bjóst við að hann mundi falla. Nei, hann kjagaði að klettinum, setti sig þar í stellingar og sagði: Hér stóð Kári og hér hjó hann og hjó, nei, nei. Svo færði hann fótinn um 15 sentímetra og sagði: Hér stóð hann. Svo hélt hann áfram að berjast.

Það er þannig sem við Íslendingar eigum að berjast. Við eigum að blása okkur í brjóst anda sagna okkar, anda Íslandssögunnar, reynslu, þekkingu, vilja og baráttuþreki og þá mun okkur skila áleiðis. (Fjmrh.: Þeir voru að berjast fyrir sig sjálfa.) Þá skilum við árangri og það skiptir öllu máli, virðulegi fjármálaráðherra, að hafa þrek til þess að vera beinn í baki og láta ekki segja sér fyrir verkum. Þegar við stöndum frammi fyrir samningi sem er versti samningur Íslandssögunnar, sem er verri en Gamli sáttmáli, sem er nánast verri en einveldissáttmálinn 1662, þá þurfum við að spýta í lófana, virðulegi forseti, og láta ekki deigan síga. (Fjmrh.: Hvernig er farið að því?) Það er grundvallaratriði að hlíta ráðum reyndustu manna og taka tillit til þátta sem skipta miklu máli.

Fyrir um það bil viku síðan birti tveir af okkar vísu lögspekingum grein í Morgunblaðinu sem fjallaði um rétt framtíðarinnar, rétt framtíðarinnar á Íslandi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Einnig má halda því fram að verið sé að ganga á lýðræðislegan rétt kjósenda með því að binda hendur Alþingis gagnvart erlendum ríkjum til ófyrirsjáanlegrar framtíðar við skuldbindingar sem geta reynst þjóðarbúinu ofviða og eru þar að auki líklega umfram lagaskyldu. Slíkt fær vart staðist 1. gr. stjórnarskrárinnar um löggjafarvald Alþingis. Í stuttu máli má halda því fram með fullum rökum að verið sé að skerða fullveldi ríkisins umfram það sem stjórnarskrá heimilar.“

Þetta, hæstv. fjármálaráðherra, verður ríkisstjórnin að halda í heiðri. Þessa úttekt verður að gera áður en kemur til þeirra samninga sem hér um ræðir og ríkisstjórnin vill samþykkja. Það þarf að kryfja til mergjar marga þætti í þessu máli vegna þess, eins og ég sagði fyrr í ræðu minni, að enginn veit enn hvað er rétt og rangt í þessu og hvað snýr upp og niður. Það eru getgátur í mörgu, það eru spár í mörgu, það eru einstaka staðreyndir sem liggja fyrir en ekki nóg til þess (Forseti hringir.) að hægt sé að taka skynsamlega ákvörðun og Alþingi Íslendinga verður að byggja á skynsemi.