138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:28]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu hv. þingmanns kom fram að hann teldi að við ættum að standa öðruvísi að málum en ríkisstjórnin hefur gert og ég get svo sannarlega tekið undir þau orð hans þótt ég geti kannski ekki tekið undir öll þau orð sem komu fram í máli hans. En þar sem ég deili þeirri skoðun hv. þingmanns að ríkisstjórnin standi sig ekki með þeim hætti sem við erum sáttir við, langar mig til að vita hvernig hann — ef við byggjum í hinum fullkomna heimi þar sem við gætum tekið þetta mál aftur til hliðar og værum í raun og veru að byrja á því — sér fyrir sér að við ættum að taka fyrstu skrefin í þessu máli, hvernig við gætum hugsanlega náð betri niðurstöðu. Eins hvort þingmaðurinn telur að einhver vilji sé til þess hjá stjórnarflokkunum við þær aðstæður sem uppi eru núna að hlusta á okkur í stjórnarandstöðunni og þær raddir sem eru úti í samfélaginu um að þetta sé algerlega óásættanlegur samningur og við þurfum með einhverjum hætti að ná samstöðu innan þingsins og helst auðvitað með allri þjóðinni, hvernig við ætlum að standa að þessu. Hvernig sér þingmaðurinn það fyrir sér? Telur hann að það sé líklegt að stjórnarmeirihlutinn og hæstv. ríkisstjórn séu tilbúin til að taka þessi mál aftur inn í nefndir til umfjöllunar eða telur þingmaðurinn kannski að fara þurfi allt aðrar leiðir? Og þá kem ég aftur að því sem ég nefndi upphaflega, ef við gætum í hinum fullkomna heimi fengið að ráða því, hvernig mundi þá þingmaðurinn vilja standa að þessu máli?