138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:38]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er engin spurning að mínu mati að það eru tengsl milli þessara þátta, milli Parísarklúbbsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, mjög slungin tengsl sem virðast eiga rætur sínar í Mið-Evrópu, því mafíufyrirkomulagi sem þar hefur ríkt um aldir, það fer ekkert á milli mála.

Það er gott dæmi um hégómann í þessu, veikleikann, ekki síst hjá Norðurlöndunum sem við höfum hingað til kallað með stolti okkar „kære brødre og venner“. Þeir fóru undan í flæmingi eins og illa gerð tryppi þegar kom að því að taka á með okkur Íslendingum þegar rigndi í flekkinn, þegar brotið reið yfir. Það er gott dæmi að Norðmenn, þó að þeir hafi alltaf verið í ákveðnum tengslum við okkur, skyldu fela Svíum að sjá um málið fyrir Norðurlöndin, Svíar, sem eru Þýskaland Norðurlandanna og hugsa alltaf fyrst og fremst um sjálfa sig. Það er alveg sama þó að margt sé gott sem þeir gera, þeir eru ekki smíðaðir til þess að sýna vinarþel öðrum en sem hentar gagnvart þeim sjálfum.

Við eigum, virðulegi forseti, að berjast í anda Kára, í anda Gísla á Melhól, þó að það sé ekki nema í anda sögunnar. Við eigum að berjast með því að beita sverði orðsins, sóknargleði, baráttugleði, og umfram allt að bera okkur vel því að það er háttur Íslendinga og þannig munum við lifa af allt í framtíðinni.