138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að svara þessu neitandi. Ég trúi því ekki og ætla það engum að fólk sé misvísandi að leyna upplýsingum. En ég vil hins vegar minna á það sem gerðist þegar fyrstu samningarnir voru lagðir fram og undirritaðir 5. júní, þá var það nú gert með mjög sérstökum hætti. Í fyrsta lagi áttum við nú ekki að fá að sjá samningana, í öðru lagi tók mjög langan tíma að fá öll gögnin fram um málið, það var ákveðin leynd á þeim. Það var gerður samningur við Breta og Hollendinga um að það mætti ekki birta ákveðin gögn, sem var náttúrlega alveg með ólíkindum. Síðan kom í ljós ástæðan fyrir því að Bretar og Hollendingar vildu ekki láta okkur sjá þetta, t.d. hvað varðar skiptingu krafna í búinu og þar fram eftir götunum. Það er með ólíkindum hvernig það var gert.

Síðan verð ég þó að segja að það sem gerðist í framhaldinu, eftir að málið kom til hæstv. fjárlaganefndar, breyttust þessi vinnubrögð til mikilla bóta. Ég hef sagt það hér áður í þessum ræðustól að hv. þm. Guðbjartur Hannesson formaður fjárlaganefndar beitti sér alltaf strax í málunum þegar stjórnarandstaðan kallaði eftir gögnum, hann á mikinn heiður skilinn fyrir það. Það var mikil breyting á þeim vinnubrögðum frá því sem áður var.

Það varð til þess að það náðist ákveðin sátt í fjárlaganefnd. Þar þjappaði fólk sér saman, talaði sig niður á lausnir og var allan tímann að leita að lausnum til þess að reyna að verja hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Það var kannski þess vegna sem við náðu þessari breiðu, pólitísku samstöðu við gerð fyrirvaranna. Það hefði verið mjög skynsamlegt hefðum við náð að vinna með þeim hætti áfram þegar búið var að semja fyrirvarana, ef hæstv. ríkisstjórn hefði fengið forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna til þess að kynna þessa fyrirvara (Forseti hringir.) með sér.