138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að hafa hv. þm. Árna Johnsen hér, hann léttir alla vega lundina hjá mörgum, þó að hann pirri nú ugglaust einhverja líka.

En það er alveg rétt sem hv. þm. Árni Johnsen nefndi og ég kom inn á í ræðu minni áðan, að mér finnst ótrúlegt að einungis fjórir hv. stjórnarþingmenn og tveir hæstv. ráðherrar hafa flutt ræðu í 2. umræðu um Icesave-málið. Það sem er skrýtnast við þetta er að þetta ágæta fólk ryðst hér inn þegar á að fara að greiða atkvæði um að halda kvöldfundi og allt í lagi með það, en mér finnst mjög dapurlegt að þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar skuli þá ekki koma í þennan ræðustól og færa rök fyrir því hvers vegna þeir eru tilbúnir til að gera þessa hluti. Nú ætla ég engum, hvorki hv. þingmanni eða hæstv. ráðherra, að taka einhverja áhættu með framtíð íslensku þjóðarinnar. Það er hins vegar skoðun mín að það sé gert með þessum samningum. En ég ætla engum að gera það meðvitað, ég trúi því ekki og ég ætla það engum.

En sérkennilegast er af hverju þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hafa ekki tekið þátt í umræðunni. Þeir hafa komið hér í einhver smáandsvör og fundarstjórn forseta, eins og í gærkvöldi, svo birtust nú allt í einu þingmenn Samfylkingarinnar og byrjuðu að ganga fyrir myndavélina, ég horfði á þetta, það var mjög áberandi, og voru svo margir hverjir nánast með eintóman skæting.

Ég velti því upp, virðulegi forseti, þegar við ræðum þessi mál hér, hvort við ættum ekki að breyta þingstörfunum, þ.e. að stjórnarandstæðingar eða stjórnarliðar á hverjum tíma, skiptir engu máli úr hvaða flokkum, eigi að fara í andsvör við hina til að hafa eðlilegar rökræður um hlutina, en ekki hafa þetta eins og núna, að koma hér inn í þingsal og greiða atkvæði um að halda fund allan sólarhringinn og hlaupa svo bara út. Það er alveg með ólíkindum. Þessu þarf að breyta. Ég held að þeir sem þurfa að standa fyrir máli sínu, eigi að gera það hér. (Forseti hringir.)