138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:11]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um vextina á láninu sem eru reyndar mjög háir en menn hafa fært rök fyrir því að þetta sé langtímalán og auðvitað í evrum. Ég vil bara minna á það að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fór mjög ítarlega yfir það að hugsanlega væri hægt að spara allt að 100 milljarða með því að taka lán með breytilegum vöxtum, vegna þess að nú eru vextir mjög lágir og við erum með heildarstabbann frystan að mestu og allt bendir til þess að vextir verði lágir næstu árin. Hann tók það meira að segja fram í útreikningum sínum að þó að breytilegir vextir hækkuðu um 1% á ári og yrðu komnir í 7%, mundum við samt hugsanlega græða 100 milljarða á því. Þannig að ég held, virðulegi forseti, að við þurfum að skoða þetta mun betur. Það er margt sem við þurfum að skoða betur í þessu máli, en því miður virðist ekki vera tími til þess, heldur á að ana út í forina.