138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í þeirri ræðu sem ég held núna ætla ég að fara í gegnum áhættugreiningu og alveg sérstaklega varðandi verðbólgu í Bretlandi.

Þegar Kárahnjúkavirkjun var byggð var farið út í mjög vandaða áhættugreiningu, það var tekið mið af jarðskjálftum, ef stíflan læki o.s.frv., enda var það stór framkvæmd sem á endanum kostaði 133 milljarða á verðlagi 2007.

Við erum að tala hér um miklu, miklu stærri upphæðir og mér finnst alveg sjálfsagt, frú forseti, að hv. fjárlaganefnd láti fara fram áhættugreiningu á þessu dæmi, það er algjört lágmark. Fyrir utan það að mig langar ekki til að sjá nefndarmenn í hv. fjárlaganefnd horfa upp á það eftir kannski fimm, sex ár að eitthvað hefur klikkað í lögfræðinni fyrir breskum dómstól vegna þess að þeir fengu ekki lögfræðilegt álit sérfræðinga í breskum rétti og bresku dómskerfi. Það verður ekki þægileg staða á þeim tíma, eða þá að eitthvað kemur til í áhættugreiningunni sem menn reiknuðu ekki með og átti ekki að gerast. Þetta er bara nákvæmlega eins og útrásarfyrirtækin, þau keyptu hlutabréf og þetta átti allt að ganga ljómandi vel upp og örugglega sýndu útreikningar það að þetta gekk allt að meðaltali ágætlega upp. En svo komu frávikin og allt fór á hausinn.

Við Íslendingar verðum að fara að hætta að taka svona áhættu. Ég held að það sé alveg ástæða til að fara í áhættugreiningu og ég ætla að fara í gegnum nokkra áhættuþætti. Í fyrsta lagi, hvað gerist ef enginn hagvöxtur verður á Íslandi? Ég er búinn að spyrja hagfræðingana sem hafa hér tekið til máls, þeir eru nú allir úr stjórnarandstöðunni, og það er samdóma álit þeirra að ef enginn hagvöxtur verður þýðir það fátækt. Og að halda að menn geti í þeirri stöðu farið að borga einhverja vexti í pundum og evrum til Bretlands og Hollands er afskaplega hæpið. Ef enginn hagvöxtur verður mun lánið, ef við getum kreist vextina undan nöglunum, alltaf halda áfram að vera í sömu evrutölu og pundtölu, við borgum alltaf vextina, pínum okkur til þess og lánið er ævarandi.

Ef verðbólga yrði mikil og gengið félli enn frekar á næstu þrem, fjórum árum þangað til Landsbankinn fer að gera upp sitt dæmi, sýnir tafla í nefndaráliti 4. minni hluta efnahags- og skattanefndar til fjárlaganefndar að Landsbankinn fer fljótlega að borga almennar kröfur. Og það sem hann borgar í almennar kröfur, sem eru mörg þúsund milljarðar, 2 þúsund milljarðar, borgar hann ekki til Icesave, þannig að Icesave þar sem skuldin vex og krafan er í krónutölu 100% greitt, þar myndast gat sem vex og vex eftir því sem verðbólgan vex og gengið fellur meira. Þetta er mikil áhætta svo maður tali ekki um það ef neyðarlögin halda ekki. Það er farið í gegnum það líka að þá getur skuldbindingin orðið 950 milljarðar.

Endurheimtur til Landsbankans eru háðar ýmsu, t.d. stöðu á mörkuðum erlendis, vöxtum og vaxtakjörum og öðru slíku, og það er líka einn áhættuþáttur sem þyrfti að taka inn í. Lánshæfismat ríkisins er líka einn áhættuþáttur og ég er nærri viss um að ályktanir flestra stjórnarsinna eru rangar að því leyti. Það getur ekki verið að ef menn taka á sig meiri skuldir en þeir nauðsynlega þurfa batni lánshæfismatið. Það er miklu betra að reyna að ná betri samningum, þá vita menn þó alla vega hjá lánshæfismatinu að þetta stendur til boða, það sem við erum að ræða í dag, og lánshæfismatið getur ekki annað en batnað en sennilega stendur það í stað.

Hér er búið að ræða töluvert mikið um vexti, þeir eru náttúrlega óskaplega háir á þessum samningi og sérstaklega af því að þeir eru í pundum og evrum og ég ætla að fara í gegnum það núna, frú forseti.

Ég skoðaði verðbólgu í Bretlandi í pundum síðustu hundrað árin, þau eru til frá 1750, en ég skoðaði sérstaklega síðustu hundrað ár. Það sýnir sig að á tímabilinu 1921–1934, það er dálítið merkilegt tímabil í Bretlandi, var verðhjöðnun á hverju einasta ári. Það sem menn gátu keypt fyrir 100 pund í byrjun tímabilsins kostaði ekki nema 62 pund í lok tímabilsins, af því að vöruverð lækkaði svo mikið og stöðugt. Það yrði stórhættulegt fyrir Íslendinga ef slík staða kæmi upp vegna þess að við fengjum alltaf færri og færri fyrir fiskinn og þyrftum alltaf að borga sömu vextina á verðmætari pund. Þetta var í Bretlandi raunverulega í 14 ár, meðalverðhjöðnun var 3,3% á ári mínus, og ef það bætist við 5,55% vexti erum við að tala um 9,2% vexti, raunvexti í pundum. Slíkir vextir tvöfalda eign á átta árum. Það mundi þýða að það sem við skuldum núna, eitt einbýlishús eða eitt tonn af fiski eða eitt tonn af áli, yrðu tvö tonn af áli eftir átta ár. Þetta yrði gjörsamlega óbærilegt, frú forseti, gjörsamlega óbærilegt. Þá mundi skuldin allt í einu tvöfaldast ef þetta tímabil, sem var í Bretlandi raunverulega, kæmi aftur.

Svo kemur annað tímabil frá 1969–1982 og þá var verðbólga í Bretlandi og hún var að meðaltali 12%. Þá hefðu raunvextirnir verið mínus 5,7% og þá hefði Íslendingurinn glaðst því að þá helmingast eignin á 12 árum. Það þýðir að eftir 12 ár þyrftum við að borga helmingi minna, álið væri tvöfalt meira virði til að borga pundin. Ef menn halda ekki að þetta sé áhætta sem við erum að taka fyrir þessar óskaplegu upphæðir, þá er eitthvað mikið að. Við ráðum engu um það hvort það er verðhjöðnun eða verðbólga í Bretlandi, ekki nokkurn skapaðan hlut.

Þessi tvö dæmi voru raunverulega þarna og þau geta komið aftur. Þetta þarf að taka inn í dæmið og ég legg til, frú forseti, að hv. fjárlaganefnd taki málið aftur inn og fari í vandaða áhættugreiningu á öllu dæminu til að þjóðin viti svona nokkurn veginn hvað bíður hennar. Nú er það svo að ég tel töluverðar líkur á því að allt gangi vel og þá væri ágætt að hæstv. fjármálaráðherra hlustaði. Ég tel töluverðar líkur á því að allt gangi vel, meira að segja að forsendur Seðlabankans gangi eftir að hér verði 3% hagvöxtur og þá munum við borga þetta allt saman léttilega. Þá munu menn segja árið 2025: Hvað voru menn að röfla um þetta Icesave-mál? Þetta var ekkert, jæja, reyndar dálítið mál en ekkert óbærilegt.

Ég veit ekki hve miklar líkur eru á að þetta gerist. Íslenskt atvinnulíf er mjög sterkt, útflutningurinn er mjög sterkur, það er búið að gera ráðstafanir með bankana, það er búið að gera helling, þetta er tiltölulega bjart. En svo kemur hinn endinn, að ef svo færi að hér yrði ekki hagvöxtur eða að pundið hækkaði í verði eða eitthvað annað, það eru ákveðnar líkur á því líka, þá lendum við í því að geta ekki borgað og unga fólkið fer allt til útlanda, það flýr.

Þetta er ekki svartsýni, frú forseti, ég er bara að segja að það séu ákveðnar líkur á þessu nákvæmlega eins og það eru líkur á að allt gangi vel. En við megum ekki láta það koma upp, við megum ekki láta þá stöðu koma upp að íslensk þjóð geti ekki borgað, verði vanskilamenn og þurfi að fara á hnjánum til Breta og Hollendinga og jafnvel fallast á hugmyndir eins og það að hollenskt fyrirtæki kaupi Landsvirkjun fyrir lítinn pening eða þá að skoskir togarar fái að veiða við Ísland, að það komi alls konar svoleiðis hugmyndir upp til að leysa vanda Íslendinga sem geta ekki borgað. Þetta getur orðið skelfileg staða. Ég held t.d. að umhverfisverndarsinnar ættu virkilega að fara að hugsa sinn gang vegna þess að það er ekkert víst að Bretar og Hollendingar hafi neinn sérstakan áhuga á umhverfi á Íslandi, ekkert frekar en þeir höfðu í gamla daga á umhverfinu í Kongó og víðar.

Þessi staða má ekki koma upp, við verðum að tryggja okkur. Ég tel Breta og Hollendinga miklu öflugari til að taka þessa áhættu af okkur en Íslendinga. Þeir fara létt með það, þeir mundu segja: Ja, það eru töluverðar líkur á því að þið borgið, fínt, við föllumst á það. Og mér finnst að þeir eigi bara að fallast á fyrirvarana frá því í sumar. Þeir eru sanngjarnir og raunhæfir og ef allt gengur vel borgum við hvert einasta pund og hverja einustu evru. En ef þau tilfelli koma upp sem ég er búinn að nefna hérna, ef svo illa skyldi vilja til, megum við ekki skilja þjóðina eftir á vergangi, við megum það ekki. Þess vegna legg ég mikla áherslu á það, frú forseti, að við gerum eitthvað núna, frestum málinu og segjum að hæstv. fjármálaráðherra geti sagt við Breta og Hollendinga: Alþingi Íslendinga verður að samþykkja þetta og það var ekki tilbúið til þess.