138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Vinnslan í hv. efnahags- og skattanefnd var mjög stutt og stuttaraleg, ég mundi allt að því segja óvönduð. Málið var tekið út í hasti með þeim orðum að við ættum að ræða þetta í þingsal. Ég átti ekki von á því að það yrðu einræður stjórnarandstæðinga og að ekki einn einasti fulltrúi stjórnarliða tæki þátt í umræðunni fyrir utan hæstv. fjármálaráðherra, en þeir sem voru í efnahags- og skattanefnd hafa ekki blandað sér neitt mjög mikið í umræðuna á Alþingi. Það er því ekki rétt að umræðan hafi verið flutt inn í Alþingi.

Varðandi það að taka lán fyrir þessu, það er ekki hægt, vegna þess að við vitum ekki hvað þetta er stór pakki. Það er óvissan, áhættan. Það vitum við ekki fyrr en eftir þrjú, fjögur ár. Þegar búið er að gera upp vitum við hvað þetta er stór pakki og þá gætum við hugsanlega farið að endurfjármagna ef við skuldum ekki of mikið til þess að geta það. Ríki geta ekki endurfjármagnað sig ef þau skulda of mikið, þau fá ekki lán, þannig að ekkert af þessu er hægt.

Svo vil ég benda á að þar sem talað er um 252 milljarða hjá Seðlabankanum þá er það núvirt miðað við 5,55% vexti. Ég geri athugasemd við það, það eru allt, allt of háir vextir til að núvirða. Menn hefðu kannski átt að taka 1–2%, það eru vextir sem eru í gangi, það er sá hagvöxtur sem er í gangi. Það er fráleitt að nota 5,55% vexti því að þannig gera menn upphæðina mjög litla, hún sýnist vera lítil en hún er miklu, miklu stærri.