138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:26]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég vil bara minna hv. þm. Pétur H. Blöndal á það að þegar við vorum að vinna efnahagslegu fyrirvarana í sumar nefndi ég þá hugmynd hvort hægt væri að leita að fjármögnun annars staðar og kom með þann fyrirvara að það væri í rauninni hægt að borga þessa upphæð með fyrirvara um það að við mundum leita réttar okkar og fá raunar úrskurð fyrir dómstólum varðandi það hvort við ættum að borga þetta eða ekki. Ef í ljós kæmi fyrir dómstólum að við ættum ekki að borga þetta, mundum við að sjálfsögðu gera kröfu um að fá þessa upphæð endurgreidda, og ef síðan kæmi í ljós að heimtur úr þrotabúinu væru minni en við værum að áætla þarna, færi fram ákveðið uppgjör þegar það lægi fyrir. Við getum gert ráð fyrir að það ætti að liggja fyrir eftir eitt og hálft til tvö ár þegar dómsmál verða útkljáð hver skuldbindingin er í raun og veru. Það verður hins vegar náttúrlega ekki fyrr en eftir sjö ár sem við sjáum fram á hversu miklar heimtur verða raunverulega í búinu, en menn telja að miðað við þær miklu niðurfærslur sem menn hafa farið í gegnum hjá gamla Landsbankanum fáist einhvers staðar í kringum 1.100–1.200 milljarðar upp í þær kröfur.

Þetta væri líka ákveðin leið til þess að við gætum borgað í íslenskum krónum og tekið út þessa miklu gengisáhættu sem ég veit að þingmaðurinn hefur haft mjög miklar áhyggjur af. Þetta er hins vegar eina skiptið, svo ég viti til, í allri umræðunni í sumar þar sem menn voru að einhverju leyti að ræða möguleikann á annarri leið. Ég skal viðurkenna að ég nefndi þetta ekki bara innan þessa hóps heldur nefndi ég þetta t.d. við þingmenn Vinstri grænna. Því miður virðist ekki hafa verið talin ástæða til að skoða þetta frekar og ég veit ekki til þess að það séu nein ákvæði (Forseti hringir.) í láninu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem koma í veg fyrir að þessi leið sé skoðuð.