138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:42]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Tiltölulega snemma í gærkvöldi lá fyrir yfirlýsing frá forseta þess efnis að haldið yrði áfram að funda hér þar til mælendaskrá tæmdist. Ef ekki liggur fyrir hvenær hægt verður að funda með þingflokksformönnum held ég að þess háttar yfirlýsing væri gagnleg þannig að það mundi þá alla vega liggja fyrir að forseti hyggst halda fundi hér gangandi þar til mælendaskrá tæmist. Eins og kom fram í fyrra skiptið sem ég kom upp um fundarstjórn forseta bendi ég á mikilvægi þess að forseti komi alla vega einhverjum upplýsingum á framfæri við þingheim.

Mér þótti það einkar athyglisvert hér í gærkvöldi að fjöldinn allur af stjórnarliðum virtist sjá ástæðu til að kíkja hingað einhvern tíma um miðnætti. Ég verð að segja að ég sakna þess svolítið að þeir skuli ekki hafa fjölmennt hingað núna þegar klukkuna vantar korter (Forseti hringir.) í eitt. Ég vil hvetja þá, ef þeir sitja fyrir framan sjónvarpsskerminn, til að mæta í þingsal og taka þátt í umræðunni.