138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:06]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, fyrir að koma upp í ræðustól og afhjúpa þær ranghugmyndir sem búa í höfði stjórnarliða varðandi þetta mál. Það er spurning hvort ekki er hægt að fá einhverjar Icesave-töflur til að lækna þá af þessum ranghugmyndum.

Staðan er þannig að við erum þegar farin að sjá tölur um fólksflótta frá landinu, þær tölur sem ríkisstjórnin hefur ekki viljað horfast í augu við, tölur sem við höfum ekki séð áratugum saman um það hversu margir eru að fara héðan. Hæstv. utanríkisráðherra hefur verið ágætur í því að spjalla við fólk og ég held hann ætti að fara að tala við fólk á aldrinum 20 ára til fertugs og spyrja hversu margt af því fólki er farið að íhuga að flytja af landi brott. Ég held að hann mundi þá skipta fljótlega um skoðun.

Það hefði verið ágætt fyrir hæstv. utanríkisráðherra að hlusta á það sem verið var að ræða fyrr í kvöld. Ég sakna þess mjög að við skulum hafa verið föst alveg frá því í sumar og jafnvel fyrr í þessum kassa sem Brussel-viðmiðin bjuggu til, að við yrðum að taka lán frá Bretum og Hollendingum á þeirra forsendum, samkvæmt þeirra tillögum, nákvæmlega undir þumalputtanum á þeim, í stað þess að skoða hvort einhverjar aðrar leiðir væru færar til að leysa málið. Ég geri ráð fyrir að hæstv. utanríkisráðherra muni hlusta áfram á mig í kvöld því að ég ætla að halda áfram að tala um þetta mál. Ég nefndi það í þessari vinnu um efnahagslegu fyrirvarana, og nefndi það líka við þingmenn annars stjórnarflokksins, hvort einhver áhugi væri á því að skoða aðrar leiðir þar sem við gætum losnað undan þessum samningi. Sá áhugi var nákvæmlega enginn vegna þess að menn hafa verið fastir í þessu hjólfari, hafa ekki getað komist út úr því og hafa ekki getað komið með neitt nýtt í þessu máli. Ég sendi þessi orð hæstv. utanríkisráðherra beint aftur í hans horn.