138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það er mér að kenna en ég sá undir iljarnar á hæstv. utanríkisráðherra um leið og ég steig upp í stólinn. En nú þekkti ég minn gamla vin. Það er einmitt á þessum tíma sem hann verður hvað sprækastur. Það þekkjum við sem erum gamlir lesendur á bloggsíðunni hans sem því miður hefur legið niðri frá því að hæstv. utanríkisráðherra tók við því starfi. En hann er hins vegar óðum að hressast og er farinn að nota bloggið sitt með þeim hætti að halda ræður eftir lágnættið. Út af fyrir sig fagna ég því að hæstv. ráðherra skuli vera með þessum kraftmikla hætti farinn að taka þátt í umræðunni.

Ég ætla að endursegja ræðu hæstv. ráðherra í fáeinum orðum. Í fyrsta lagi: Það er allt í himnalagi á Íslandi. Í öðru lagi: Icesave-skuldbindingarnar ráðum við við eins og að drekka vatn. Í þriðja lagi: Allt hefur gengið betur hjá okkur í samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn en gert var ráð fyrir í upphafi. Þar er þá kannski komin skýringin á því að endurskoðun á efnahagsáætluninni hefur tafist svona mikið. Þeir hafa staðið opinmynntir úti í Washington yfir því óskaplega afreki sem hæstv. ríkisstjórn hefur unnið á Íslandi. Þeir hafa aldrei séð annað eins og hafa ekki trúað sínum eigin augum þegar þeir hafa farið í tölurnar og þess vegna hafa þeir þrátt fyrir sína miklu visku og reynslu ekki getað komist í gegnum þessa endurskoðun. Það er þá sennilega skýringin á því að endurskoðuninni sem átti að klárast í febrúar á þessu ári lauk ekki fyrr en einhvern tíma síðla á þessu hausti.

Menn geta auðvitað látið svona eins og hæstv. utanríkisráðherra, látið eins og hann sé ekki staddur í þessu sólkerfi heldur einhvers staðar annars staðar. En veruleikinn er auðvitað allt annar. Veruleikinn er miklu daprari og miklu alvarlegri en þetta sem hæstv. ráðherra var að segja þó að það hafi auðvitað verið ágæt og virðingarverð tilraun af hans hálfu að fara að hleypa pínulitlu lífi í þessa umræðu skömmu eftir miðnættið.

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að koma inn á mál sem hefur verið að vekja með manni æ fleiri spurningar eftir því sem umræðunni hefur undið fram. Það er stundum sagt að umræða sé alltaf af hinu góða, umræða skýri málið, umræðan sé til alls fyrst o.s.frv. Ég er ekki viss um að þetta sé alltaf þannig og sumt af því sem hefur átt sér stað og farið fram í þessari umræðu núna, frá því að hún hófst, um þetta mikilsverða mál hefur fremur orðið til að gera málin óskýrari. Það er fyrst og fremst vegna þess að svör hæstv. ráðherra og þeirra örfáu stjórnarliða sem hafa ómakað sig upp í ræðustól Alþingis hafa verið með þeim hætti að það hefur hreint ekki orðið til þess að varpa neinu ljósi á það sem við höfum verið að velta fyrir okkur á margan hátt.

Stanslaust hefur verið haldið að okkur miklum hræðsluáróðri um hvað muni gerast ef Icesave verði ekki samþykkt. Muna menn umræðuna sem fór fram í sumar? Þegar hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu um Icesave-samninginn sjálfan, 2. júlí sl., fjallaði hann sérstaklega um afleiðingar þess að hafna frumvarpinu. Um þetta atriði sagði hann, með leyfi virðulegs forseta:

„Hvaða afleiðingar hefur það? Það strandar öllu aðgerðaplaninu sem nú er unnið eftir og snýr endurreisn íslensks efnahagslífs, það strandar því öllu. Það liggur fyrir, rækilega skjalfest, að samstarfsáætlunin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og afgreiðsla gjaldeyrislána þaðan strandar. Það liggur rækilega skjalfest fyrir að gjaldeyrislánafyrirgreiðsla frá hinum Norðurlöndunum strandar sömuleiðis.“

Enginn vafi í huga hæstv. fjármálaráðherra, enginn vafi. Hann er alveg klár á því að það er bæði sett algert bann við lánum frá Norðurlöndunum og fyrirgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fæst ekki fyrr en við erum búnir að afgreiða Icesave-málið. Þetta var 2. júlí.

Þann 29. júlí sagði formaður samninganefndar um Norðurlandalánin, Jón Sigurðsson, hins vegar að engin skilyrði væru fyrir því í lánasamningum við Norðurlöndin að Alþingi samþykkti Icesave. Hæstv. forsætisráðherra sagði síðan í ræðu á Alþingi tveimur vikum seinna, um miðjan ágúst, að það væri alveg skýrt og klárt að norrænu lánin væru ekki tengd við Icesave. Hverju á maður að trúa? Hver er sannleikurinn í þessu máli þegar þetta er búið og þessi mál eru orðin svona óljós? Ekki er lengur hægt að hengja sig í það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé að stranda öllu út af Icesave, þegar fyrir liggur sérstök yfirlýsing af hálfu forstjóra sjóðsins, ekki til íslenska forsætisráðherrans eða hæstv. fjármálaráðherra eða annarra ráðherra í ríkisstjórninni, því þeir höfðu aldrei uppburði til þess að ávarpa þann mikla mann, heldur vegna bréfs frá fáeinum einstaklingum í landinu.

Í þeirri yfirlýsingu kemur fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kannaðist ekki við að hann væri að stranda þessu máli. Þá liggur það fyrir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, það liggur fyrir varðandi Norðurlöndin, frá þeim mönnum sem gleggst mega vita, formanni samninganefndarinnar sjálfrar, og þá er fundið enn eitt nýtt úrræði til að reyna að hræða almenning og þjóðina með, og auðvitað stjórnarliðið sem með tregum huga gengur til þessarar umræðu og þorir satt að segja ekki að taka þátt í henni. Þá er reynt að segja okkur að það sé Evrópusambandið, hæstv. fjármálaráðherra sagði okkur í gær að það væri Evrópusambandið sem væri að kúska okkur og pína okkur og berja okkur og lemja okkur alveg eins og það mögulega gæti og hefði uppi stanslausar hótanir og hefði þetta alþjóðagjaldeyrissjóðsmál allt saman í gíslingu sinni með fláttskap sínum og fantaskap.

Hæstv. forsætisráðherra kom svo í morgun og sagði: Nei, nei, nei, nei, þetta er ekki svona. Það sem fjármálaráðherra átti við voru hótanir frá því í fyrrahaust. Auðvitað var það ekki þannig. Auðvitað vissu allir hvað var að gerast í fyrrahaust þegar gjörvallt Evrópusambandið, Bretar og Hollendingar sérstaklega, lögðust á okkur með ofurafli sínu. Auðvitað var hæstv. fjármálaráðherra að vísa almennt til þess að Evrópusambandið hefur verið eins og fótakefli í vegi okkar hvenær sem við höfum þurft á aðstoð að halda frá alþjóðasamfélaginu. Nú er síðan bætt við enn einum hræðsluáróðrinum, enn einni alþjóðastofnuninni sem á að vera að leika okkur grátt og nú eru það matsfyrirtækin, hinar ærulausu matsstofnanir sem höfðu rangt fyrir sér í nánast öllum mögulegum málum þegar þær voru að fjalla um einhver lönd á síðasta ári. Nú eiga það að vera þau sem munu taka okkur í bakaríið ef við ekki hlýðum og samþykkjum Icesave hér og nú og án nokkurra refja og án nokkurra breytinga. Nú eru það allt í einu matsfyrirtækin sem eru orðin svona hræðileg.

Maður spyr sig eftir þetta: Hvaða alþjóðastofnanir munu hæstv. ráðherrar næst draga upp úr pússi sínu til að hóta með? Getur það t.d. verið Alþjóðahafrannsóknaráðið? Ætli þeir hendi okkur út úr Alþjóðahafrannsóknaráðinu? Nú er t.d. hæstv. sjávarútvegsráðherra með sérstakt erindi gagnvart Alþjóðahafrannsóknaráðinu um að þeir meti til að mynda nýtingarstefnu okkar í þorski. Getur verið að sá fundur endi með þeim ósköpum, hann er úti í Kaupmannahöfn einmitt þessa dagana, að fiskifræðingunum okkar verði vísað út og hent heim af því að við erum ekki búin að samþykkja Icesave. Svo mætti hugsa kannski UNESCO eða einhverjar aðrar alþjóðastofnanir. Þetta er farið að verða mjög vandræðalegt fyrir hæstv ríkisstjórn hvernig hún — (Gripið fram í: Kvenfélagasambandið.) hið alþjóðlega kvenfélagasamband, það væri eftir öðru, þessi femíníski vinkill fyrir ríkisstjórnina, ef það gerðist ofan í kaupið, að það væri ekki bara Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Norðurlöndin, Evrópusambandið, Bretland, Holland, matsfyrirtækin og hvað var það fleira sem væru að gera okkur gramt í geði vegna þess að við vildum ekki samþykkja Icesave.

Þetta er algerlega fráleitur hræðsluáróður og mjög ómerkilegur áróður sem slíkur. Auðvitað eiga menn fyrst og fremst að reyna að ræða þennan samning á grundvelli þess efnis sem í honum er. Það er það sem við hv. stjórnarandstæðingar höfum verið að reyna að gera dag eftir dag eftir dag og síðan koma þessir kotrosknu stjórnarliðar sem skjótast hingað í kurteisisheimsókn líkt og í teboð, (Gripið fram í.) líta hér við, mjög margir þeirra, einn og einn situr að vísu og hlustar, en almenna reglan er sú að það eru kurteisisheimsóknir í tengslum við atkvæðagreiðslur á morgnana. Þá sér maður hóp stjórnarliða sem koma síðan og segja heldur horskir og roggnir með sig: Ja, það hefur ekkert nýtt komið fram. Þetta segja þeir þó að búið sé að tína til ótal atriði sem lúta að stjórnarskránni, sem lúta að vöxtunum, sem lúta að möguleikum okkar til endurgreiðslu, sem sýna fram á að það er búið að eyðileggja meira og minna alla fyrirvarana, efnahagslegu fyrirvararnir eru hvorki fugl né fiskur, halda ekki vatni. Allt þetta er búið að fara rækilega yfir og síðan leyfa menn sér að koma hér, skjótast í kurteisisheimsókn og segja: Það hefur ekkert nýtt komið fram.

Virðulegi forseti. Það er hörmulegt (Forseti hringir.) hvernig stjórnarliðið hefur staðið sig í þessari umræðu með fáeinum undantekningum þó. Ekki hefur tekist að halda uppi eðlilegri lýðræðislegri umræðu um þetta mikilvæga mál.