138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá þingmanninum, það er hraksmánarlegt að þetta frumvarp skuli vera komið fyrir þingið og að ríkisstjórnin skuli hafa lotið í gras fyrir Bretum og Hollendingum eftir að Alþingi hafði samþykkt lögin og komið heim með þann óskapnað sem nú liggur fyrir. Ég verð að fullyrða að ráðherrar hafa sagt af sér af minna tilefni en þessu. En að leyfa sér að fara utan og semja um íslensk lög sem hið íslenska Alþingi hafði nýlega sett er alveg með ólíkindum.

Ég ætla aðeins að halda áfram með hvað þetta mál hefur breyst gríðarlega miðað við hvað ríkisstjórnin og formaður fjárlaganefndar var bjartsýnn 28. ágúst þegar lögin voru samþykkt. Það var greinilega sólskinsdagur í huga þessa fólks þá því, með leyfi forseta, ætla ég að lesa upp úr ræðu hv. formanns fjárlaganefndar, Guðbjarts Hannessonar:

„Við erum að taka til lokaafgreiðslu erfitt og þungt mál sem verður vonandi leitt hér til lykta. Í meðförum þingsins hefur sú ríkisábyrgð sem verið hefur til umfjöllunar lotið miklum og öflugum fyrirvörum sem við verðum síðan að fylgja eftir. Það er Alþingi sem setur þessa fyrirvara og það er Alþingi sem mun fylgja þeim eftir. Við treystum á að þeir haldi og höfum fullvissu fyrir því.“ — Og höfum fullvissu fyrir því.

„Málið er þungt en krafðist lausnar og niðurstöðu og ég treysti á að sú niðurstaða fáist. Ég vísa öllum ummælum um að einhver blekkingaleikur hafi verið í gangi eða að hér sé einhver feluleikur á ferð út í hafsauga og segi já.“

Svo mörg voru þau orð hjá hv. formanni fjárlaganefndar. Maður er með hálfgerðan aumingjahroll yfir því að lesa þessar ræður nú þegar málið er komið aftur heim. Það er hræðilegt hvernig þetta fólk talaði 28. ágúst. Ég spyr þingmanninn á ný: Eru Bretar og Hollendingar að hóta ríkisstjórninni eða hvað er um að vera miðað við sólina sem skein í hugum þessa fólks 28. ágúst sl.?